Ný tækni í þróun sem á að menga minna
Töluverð umræða hefur verið í gangi um nokkurt skeið vegna aukinnar loftmengunar frá bílum og hefur í því sambandi komið til greina að banna notkun bensín- og dísilbifreiða frá árinu 2040. Borgaryfirvöld víða um Evrópu ætla að taka á þessum vanda en loftmengun hefur aukist til muna í stærstu borgum Evrópu. Um 30 þúsund manns láta lífið á hverju ári í Bretlandi svo að rekja megi til útblásturs frá bílum.
Þýska fyrirtækið Bosch sagði frá því á dögunum að það væri á góðri leið með að þróa tækni sem drægi verulega úr mengun frá dísilbílum. Fyrirtækið segir að með þessari nýju útblásturstækni ætti ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir bílana að keyra inn á ákveðin svæði í stórborgum sem til stendur að banna þeim að fara inn á.
Nokkur fyrirtæki í Evrópu, þar á meðal í Danmörku, hafa lengi unnið að því að finna leið til að draga úr níturoxíð menguninni, NO x, frá díselbílum en svo virðist sem Bosch hafi tekið frumkvæðið í þessum efnum. Við mikinn hita eða háan loftþrýsting getur súrefni (O2) og köfnunarefni eða nitur (N2) andrúmsloftsins umbreyst í köfnunarefnisoxíð (nituroxíð, (NOx). Þetta getur til dæmis gerst íflugvélahreyflum og í útblæstri frá bílum.
Þessi nýja tækni, sem Bosch hefur fundið upp, felst í því að hafa stjórn á hitanum í bílnum . Hreinsitækin í bílunum virka ekki að fullu fyrr en þeir eru orðnir heitir. Takmarkið sé að hafa stjórn á þessu þannig að þetta virki um leið og bílarnir eru ræstir. Nú segjast forvarsmenn Bosch hafa leyst málið en mikil kynningarvinna sé fram undan áður en lengra verður haldið.
Sest verði niður með stjórnvöldum og unnið að því að fá einkaleyfi fyrir þessari tækni. Dísilbílar hafa átt undir högg að sækja og eftirspurnin hefur minnkað. Forsvarsmenn Bosch eru hins vegar brattir og segja að dísilbílar séu síður en svo að hverfa.