Ný tjaldbúðahandbók á leiðinni
16.03.2007
FDM Campingguide tjaldbúðahandbókin 2007 er komin út hjá FDM, systurfélagi FÍB í Danmörku. Bókin verður fáanleg hjá FÍB innan skamms. Í hennir er lýsing á yfir 2.825 tjaldsvæðum í Evrópu. Öll svæðin hafa verið metin og hlotið stjörnugjöf í samræmi við aðstöðu og búnað. Með bókina í hönd er auðvelt að bera saman tjaldsvæði, mæla þau við eigin þarfir og ákveða síðan hvar skal gista eða dvelja í sumarleyfinu. Loks fylgir sérstakt afsláttarkort með handbókinni.
Sumarleyfistíminn og tjaldsvæðatíminn er að ganga í garð og rétti tíminn nálgast til að ákveða hvert skal halda í sumarleyfinu. Stöðugt fleiri Íslendingar kjósa að njóta sumarfrísins í tjaldi, tjaldvagni eða hjólhýsi á fallegum stöðum með skemmtilegu fólki.
Í FDM Campingguide Europa 2007 eru lýsingar á vinsælustu tjaldsvæðunum. Þar eru mikilvægar upplýsingar fyrir tjaldbúðafólk um það sem máli getur skipt á ferðalagi í hinum ýmsu löndum. Öll tjaldsvæðin sem lýst er í bókinni eru skoðuð árlega af ferðamálasérfræðingum ADAC, sem er hið þýska FÍB og FDM. Þeir hafa metið þau og gefið þeim stjörnur eftir atriðum eins og staðsetningu, búnaði og aðstöðu. Í lýsingu á hverju tjaldsvæði fyrir sig er m.a. tilgreint verð á gistingu, staðsetning og stjörnugjöf.
„Campingguid Europe er ómissandi handbók. Í henni geturðu auðveldlega séð upp á hvað er boðið á hverju tjaldsvæði fyrir sig. Sumir vilja að innanhúss leiksvæði sé í boði fyrir litlu börnin, aðrir meta hæst góða íþróttaaðstöðu og Internetaðgang. Með bókina í hönd er auðvelt að bera saman verð á svæðunum og sjá hvar afsláttarkortið CampCard nýtist best,“ segir Randi Voldbakken ferðarágjafi hjá ferðaþjónustu FDM.
CampCard afsláttarkortið fylgir með í kaupum á handbókinni og gegn framvísun þess fæst afsláttur á um 750 tjaldsvæðum í Evrópu. Með kortinu er hægt að ná fram umtalsverðum afsláttum og sparnaði ef ferðast er utan háannatímans.
Þeir félagsmenn sem kaupa FDM Campingguide Europa 2007 hjá FÍB munu, ef þeir óska, fengið GPS staðsetningarpunkta þess eða þeirra tjaldsvæða sem þeir hafa hug á að gista. Starfsfólk FÍB getur kallað fram staðsetningarpunktana og kaupendur handbókarinnar geta hlaðið þeim inn í leiðsögutæki sín. Þessar upplýsingar eru svo nákvæmar að leiðsögutækið leiðir þá viðkomandi beinlínis að innkeyrsluhliði tjaldsvæðisins. Þar með er engin hætta á að villast og þurfa að bakka og snúa við með tjaldvagninn eða hjólhýsið í eftirdragi.