Ný túrbínudísilvél fyrir Volvo C70

http://www.fib.is/myndir/Volvo%20C70-litil.jpg
Volvo C70 - nú með dísilvél.

Volvo er um þessar mundir að auka vélaúrvalið í C70 gerðinni. Nýjasta viðbótin er fjögurra strokka tveggja lítra túrbínudísilvél. Hún verður jafnframt fyrsta fjögurra strokka vélin í þessum opnanlega sportbíl Volvo.

Frederik Arp forstjóri Volvo segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að með nýju vélinni sé verið að koma til móts við kaupendur og hann er þess fullviss að nýja dísilvélin muni verða í allt að 20% allra seldra C70 bíla af 2008 árgerð. „Þessi nýja dísilvél mun verða mjög vinsæl því hún gefur góða blöndu af akstursánægju og hagkvæmni,“ segir forstjórinn.http://www.fib.is/myndir/Volvo%20C70-stor.jpg

Áætlun um ársframleiðslu dísilútgáfu C70 er þó varfærnari en forstjórinn segir því hún gerir ráð fyrir að á næsta ári verði byggðir tvö þúsund C70 2,0 dísilbílar. Það þýðir miðað við núverandi framleiðslu að 10. hver C70 verður með dísilvélinni. Frumsýning dísilútgáfunnar verður að öllum líkindum á bílasýningunni í Frankfurt í sept. nk.

Nýja dísilvélin er af annarri kynslóð dísilvéla með samrásarinnsprautun. Hún er 100 kW (136 ha.) og vinnsla hennar er 320 Newtonmetrar. Eyðsla í blönduðum akstri samkvæmt evrópskri staðalmælingu er 6,1 l / 100 km. Hún kemur bílnum í hundraðið úr kyrrstöðu á 11 sek. Og hámarkshraðinn er 205 km / klst. Öragnasía á útblásturskerfinu með sjálfvirkum hreinsibúnaði er staðalbúnaður.