Ný vélaverksmiðja PSA á teikniborðinu
PSA- samsteypan (Peugeot-Citroen) ætlar að stofnsetja nýja bílvélaverksmiðju í A. Evrópu þar sem framleidd verður ný kynslóð véla sem eru einn lítri að rúmtaki og sem gefa frá sér innan við 100 grömm af koltvíildi á hvern ekinn kílómetra. Vélarnar eiga að koma í nýjum gerðum Peugeot og Citroënbíla sem væntanlegar eru á næstu árum.
Peugeot-Citroën bílaverksmiðjur eru þegar í Slovakíu og Tyrklandi og vilja menn hafa nýju vélaverksmiðjuna ekki allt of langt frá þeim. PSA hefur gert langtímaáætlun um umhverfismildari bíla sem koma til móts við hertari kröfur um útblástur, ekki síst í Evrópu. Vélarnar sem framleiddar verða eru þriggja strokka bensínvélar og bílarnir sem þær eiga að fara í, verða byggðir í einmitt Slóvakíu og Tyrklandi. Afl þeirra verður frá 70 til 100 hestöfl og síðarmeir verður hægt að setja við þær túrbínur til auka þeim afl.
Þau ríki sem til greina koma fyrir nýju vélaverksmiðjuna eru Pólland, Rúmenía, Tyrkland og Úkraína. Ákvörðunar um hvaða land hreppir hnossið er að sögn Automotive News Europe væntanleg fyrir áramót.