Ný verksmiðja sem endurnýtir gömul dekk
Þýski hjólbarðaframleiðandinn Continental hefur fengið sérstök umhverfisverðlaun fyrir nýja hjólbarðaverksmiðju sína í Hannover í Þýskalandi. Verksmiðjan sem nefnd er ContiLifeCycle framleiðir hjólbarða með nýjum aðferðum og nýrri tækni sem gerir það mögulegt að endurnýta gúmmí úr gömlum hjólbörðum – nokkuð sem ekki hefur verið talið gerlegt hingað til. Með þessari nýju tækni sparast náttúrugúmmí frá milljónum gúmmítrjáa.
Í risavöxnum höfuðstöðvum Continental í Hannover í Þýskalandi þar sem bæði rannsókna- og tilraunastöðvar eru til staðar hefur lengi verið unnið að því hörðum höndum að þróa aðferðir og tækni sem gera það mögulegt og hagkvæmt að endurnýta gamla hjólbarða og draga þannig úr því gríðarlega álagi sem verið hefur á gúmmítré og gúmmíplantekrur heimsins. Unnið hefur verið að þessu eftir margþættri og metnaðarfullri áætlun sem nefnist Vision 2025. Samkvæmt henni skuldbindur iðnaðarrisinn sig til að vera í fararbroddi í umhverfisvernd á öllum sviðum starfsemi sinnar.
Nýja ContiLifeCycle verksmiðjan er hluti af þessu en hún endurnýtir og sólar vörubíla- og rútuhjólbarða með sérstökum aðferðum sem tæknikunnáttufólk telur einstæðar. Verksmiðjan tók til starfa skömmu fyrir lok síðasta árs eftir einungis 18 mánuði frá því að hugmynd að endurnýtingar- og framleiðsluaðferðunum komu fyrst fram.
ContiLifeCycle verksmiðjan getur framleitt um 180.000 hjólbarða á ári. Til þess eru notuð um 4000 tonn af endurnýttu gúmmíi en það þýðir að um 2400 tonn af gúmmímassa frá gúmmítrjám sparast, sem annars þyrfti að sækja í 1,3 milljónir gúmmítrjáa.