Nýi jepplingurinn frá Mazda á gráa markaðinum áður en hann er kominn á markað
Mazda CX-7. Mikil eftirspurn - sölubann út úr USA.
Eftirspurn eftir nýjum jepplingi - CX-7 frá Mazda er svo mikil að orðinn er til grár markaður fyrir bílinn og það áður en byrjað er að selja hann fyrir alvöru. Mazda í Bandaríkjunum hefur sett útflutningsbann á bílinn og harðbannað umboðsaðilum sínum að selja bílinn úr landi.
Mazda CX-7 er eiginlega langbakur en með yfirbragði stórs lúxusjeppa eða –jepplings en slíkir bílar eru kallaðir „Crossovers“ í Bandaríkjunum. Sala á honum á að hefjast í Bandaríkjunum í aprílmánuði. CX-7 er einvörðungu byggður í Japan og hófst framleiðslan í febrúar sl. Ekki er enn komið á hreint hvort eða í hversu miklum mæli bíllinn verður boðinn til sölu í Evrópu og meðan það er enn óklárt hafa fjölmargir evrópskir bílasöluaðilar og umboðsmenn leitað til söluumboðsaðila í Bandaríkjunum og leiðat eftir því að kaupa CX-7 í „kippum“ og flytja til Evrópu. Það er ekki síst hliðarinnflutningsaðilar sem bílaframleiðendur nefna stundum gráa söluaðila - aðilar utan þeirra eigin sölukerfis - sem sækjast eftir bílnum.
Einn bandarískur söluaðili Mazda segir í samtali við Automotive News að fulltrúar ónefnds fyrirtækis í Kaliforníu hafi haft samband við sig og boðist til að kaupa af sér 20 CX-7 bíla strax og gera samning um kaup á 200 bílum í mánuði í framhaldinu – allt á yfirverði. Í fréttinni segist umboðsaðilinn hafa hafnað tilboðinu.
Einhver innan sölukerfis Mazda í Bandaríkjunum hefur þó sennilega ekki staðist mátið því að „grár“ bílainnflytjandi í Rússlandi hefur auglýst CX-7 bíla til sölu á Internetinu. Hann vill fá 57 þúsund dollara fyrir stykkið sem er tvöfalt hærra en auglýst verð í Bandaríkjunum. Þegar Mazda í Japan frétti af þessum mikla áhuga á bílnum og eftirspurn eftir honum var haft samband við alla söluaðila Mazda í Bandaríkjunum – mánuði áður en útflutningurinn til Bandaríkjanna hefst - og þeim algjörlega bannað að selja CX-7 út úr Bandaríkjunum.