Nýir lampar með LED ljósgjafa
Götuljósateymi Orku náttúrunnar vinnur þessa dagana að útskiptum götuljósalampa í Breiðholti. Í stað eldri lampa með hefðbundnum perum eru settir upp nýir lampar með LED ljósgjafa. Verkinu miðar vel og mun að óbreyttu ljúka í janúar nk. en alls verður skipt um tæplega 3400 lampa í hverfinu. Íbúar og vegfarendur í Breiðholti hafa mögulega tekið eftir götuljósateymi Orku náttúrunnar sem hefur verið á ferðinni í hverfinu á körfubílum undanfarnar vikur.
Umfangsmikil lampaskipti eiga sér nú stað og munu íbúar því upplifa betri lýsingu með auknum ljósgæðum. Þessum Lampaskiptunum fylgir umtalsverður orku- og viðhaldssparnaður en einnig mun ljósmengun frá götulýsingu minnka með betri stýringu ljósgjafans og aukinni tækni. Með LED ljósgjöfum er hægt að stýra betur birtustigi og dreifingu ljóssins en áður og er um að ræða 8 tegundir lampa sem henta ólíkum aðstæðum í hverfinu.
Góð litarendurgjöf og jöfn lýsing getur í raun verið mikilvægari fyrir upplifun íbúa á góðri lýsingu heldur en birtustigið eitt og sér og gerir Reykjavíkurborg sterkari kröfur um jafna lýsingu en lágmarkskröfur í stöðlum segja til um.
„Hlýrri“ lýsing við húsagötur
Litarhitastig ljóssins eða ljóslitur var áður annars vegar um 2000K (rauðgult) frá natríum perunni og hins vegar um 4100K (bláhvít) frá kvikasilfursperunni, sem algengt er að sé við húsagötur. Þess í stað verður litarhitastig nær því sem fólk þekkir frá heimilum sínum eða um 2700K við húsagötur og 3000K við stofn- og tengibrautir, sem er svipað og gömlu gló- og halógen perurnar. Við Breiðholtsbraut eða aðra þjóðvegi í eigu Vegagerðarinnar verður litarhitastig 4000 K (hvítur litur) en ekki verður skiptu um þá lampa í þessum hluta en lýsingu verður breytt síðar.
Stjörnurnar sjást betur í nýrri lýsingu
Með hinni nýju lýsingu munu vegfarendur skynja liti í umhverfinu réttar og betur. Litarendurgjöf er mælikværði á hversu vel litir greinast þar sem 100 er eins og hún gerist best miðað við dagsbirtu. Við lampaskiptin mun mæling á þessum gildum aukast úr því að vera um 20 í það að vera 70 að lágmarki.
Með betri stýringu ljósgjafans er verið að draga úr sóun á ljós með því að lýsa aðeins þar sem þess er þörf og í kjölfarið verið að draga úr ljósmengun. Þær kröfur eru gerðar til allra þessara lampa að ekkert af ljósstreymi hans lýsi upp í næturhiminninn þ.e. ekkert ljós frá lampanum fer upp fyrir 90°. Með þessu er verið að stuðla að auknum myrkurgæðum sem gerir íbúum kleift að sjá stjörnurnar betur.