Nýir vegir og ný brú á Norðurlandi vestra formlega opnuð
Vegagerðin opnaði í vikunni formlega nýjan Þverárfjallsveg, nýjan kafla á Skagastrandarvegi og nýja, tvíbreiða brú yfir Laxá í Refasveit. Klippt var á borða við ný gatnamót Þverárfjallsvegar og Skagastrandavegar að viðstöddu fjölmenni.
Heildarvegalengd nýrra vega og brúar er um 11,8 km en einnig voru byggðar nýjar tengingar og heimreiðar, samtals um 4,5 km að lengd. Nýr Þverárfjallsvegur og nýr kafli á Skagastrandarvegi bæta samgöngur á milli þéttbýlisstaða á Norðurlandi vestra, auka umferðaröryggi vegfarenda og íbúa og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu. Nýju vegirnir eru með bundnu slitlagi og uppbyggðir með tilliti til snjóa. Hönnunarhraði veganna er almennt miðaður við 90 km/klst. hámarkshraða.
Framkvæmdin fólst í byggingu nýs Þverárfjallsvegur í Refasveit frá Hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd, byggingu nýs Skagastrandarvegar frá nýja Þverárfjallsveginum, yfir nýja brú, að núverandi Skagastrandarvegi norðan við Höskuldsstaði í Skagabyggð, um 3,3 km að lengd.
Á Skagastrandarveg var byggð ný 106 m löng brú yfir Laxá í Refasveit. Brúin er í þremur höfum, steinsteypt og eftirspennt. Brúin er sú fjórða sem byggð er yfir Laxá svipuðum slóðum. Sú fyrsta var byggð árið 1876 og var 13 metra löng timburbrú sem var yfir þröngt gil sem nefnist Ámundahlaup og er vestan við nýju brúna. Næsta brú var byggð á árunum 1924-1927, var það járnbent steinbogabrú. Þriðja brúin var byggð árið 1973, 75 metra löng, einbreið bitabrú.
Umferð um þetta svæði hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Um aldamótin var umferðin 501 bíll á sólarhring yfir sumartímann á gamla Skagastrandarveginum. Á síðasta ári var umferðin komin upp í tæplega 1100 bíla á sólarhring yfir sumartímann. Því hefur orðið tvöföldun á fjölda bíla frá aldamótum. Þá hefur orðið töluverð aukning þungaumferðar vegna sorpurðunar og fiskflutninga, sér í lagi síðan Þverárfjallsvegurinn yfir til Sauðárkróks var opnaður fyrir um tuttugu árum. Það hefur aukið álag á vegi sem ekki voru hannaðir fyrir slíka umferð.