Nýja Fiat Pandan með aldrifi
Þriðja kynslóð Fiat Panda og sú nýjasta verður fáanleg í Evrópu með drifi á öllum hjólum síðar í þessum mánuði. Þetta er hábyggður og gerðarlegur smábíll og líklegur til að komast ýmislegt sem ekki þýðir að reyna á venjulegum smábílum. Panda 4x4 var frumsýndur á bílasýningunni í Moskvu sem nú stendur yfir og verður einnig á Parísarsýningunni sem verður opnuð síðar í mánuðinum.
Tæpt ár er nú liðið síðan hin nýja kynslóð Fiat Panda kom á markað og legið hefur í loftinu að 4x4 útgáfa væri væntanleg innan tíðar. Nýja Pandan yrði þannig ekki eftirbátur fyrirrennaranna sem báðir fengust fjórhjóladrifnir. Og enn sem áður er Pandan einn örfárra smábíla með drifi á öllum hjólum og sennilega sá eini sem kallast getur torfærubíll.
Fyrsta kynslóð Fiat Panda með fjórhjóladrifi kom fram 1983 og var upphaflega hugsuð til að uppfylla þarfir bænda í Ölpunum, ekki síst vínbænda, til að komast eftir bröttum vegaslóðum og fjárgötum og milli vínviðartrjánna upp eftir fjallshlíðunum. Hin nýja Panda 4x4 gerir það áreiðanlega ekkert síður en sú fyrsta gerði en henni er líka ætlað að höfða til borgarbúa sem vilja bíl sem bæði lítur vel og sterklega út en er líka heppilegur þegar skreppa þarf upp í fjöll á skíði eða í fjallgöngur.
Nýja 4x4 Pandan er með tölvustýrðu fjórhjóladrifi sem miðlar aflinu til fram- og afturhjóla eftir þörfum. Seigjutengsli milli fram- og afturhjóla er tölvustýrt og sömuleiðis eru mismunadrifslæsingar tölvustýrðar.
Panda 4x4 er 368 sm að lengd, 167 sm að breidd og 160 sm á hæð. Það þýðir að hann er þremur sm lengri og breiðari og fimm sm hærri en venjulega útgáfan. Hann verður í boði með einni gerð bensínvélar og einni gerð dísilvélar til að byrja með. Bensínvélin er 0.9 l að rúmtaki, tveggja strokka 85 ha. Twinair með túrbínu. Dísilvélin er fjögurra strokka 1,3 lítrar að rúmtaki og 75 hö.