Nýjar forsendur á útfærslu á tvöföldun Reykjanesbrautar komnar fram
Nýjar forsendur á útfærslu á tvöföldun Reykjanesbrautar eru komnar fram í nýútkominni frumdragaskýrslu Vegagerðarinnar og Mannvits. Þar kemur fram að hagkvæmast er að breikka Reykjanesbrautina, frá gatnamótum við Krýsuvík að Hvassahrauni, í núverandi vegstæði og einfalda fyrri útfærslur sem kallar jafnframt á breytt aðalskipulag. Þetta kemur fram á Facebook síðu Sigurðar Inga Jóhannsonar samgönguráðherra.
Þar segir Sigurður Ingi ennfremur að í sínum störfum samgönguráðherra hafi hann sett umferðaröryggi í forgang þegar kemur að uppbyggingu í samgöngum.
,,Ég fundaði í haust með fulltrúum Vegagerðarinnar og hef átt samtöl við fulltrúa Hafnafjarðabæjar og álversins í Straumsvík. Ég mun beita mér fyrir því að aðilar vinni málið út frá þeim forsendum sem nú liggja fyrir. Náist farsæl lending verður hægt að flýta og ljúka framkvæmdum við Reykjanesbrautina frá gatnamótum við Krýsuvík að Hvassahrauni á fyrsta tímabili samgönguáætlunnar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson á Facebook síðu sinni.
Fram hefur komið á fib.is að Stopp – hingað og ekki lengra hópurinn sem berst fyrir umbótum á Reykjanesbraut hafi fundað með forstjóra Vegagerðarinnar, framkvæmdastjóra tæknisviðs Vegagerðarinnar og sviðsstjóra framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar. Í samtali við FÍB sagði Guðbergur Reynissonar, einn af forsvarsmönnum hópsins að þung áhersla væri lögð á tvöföldun brautarinnar frá Hvassahrauni til Krísuvíkurafleggjara og framkvæmdum verði flýtt eins og kostur er. Fleiri fundir við hagsmunaaðila eru fyrirhugaðir á næstunni. Þung áhersla er lögð á að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst og verði sett í forgang í samgönguáætlun.