Nýjasta bilanatölfræði ADAC
Undanfarin 35 ár hefur hið þýska systurfélag FÍB, ADAC, birt tölulegar upplýsingar um bilanatíðni bíla. Upplýsingarnar eru byggðar á skýrslum vegaþjónustu félagsins sem félagsmenn kalla eftir þegar bílar þeirra bila á vegum úti, eða fara ekki gang vegna straumleysis eða hafa orðið ógangfærir einhverra hluta vegna.
Nú er nýjasta rannsóknin komin út og nær hún til útkalla ADAC vegaþjónustunnar á síðasta ári. Út úr henni má lesa hvaða bílategundir eru áreiðanlegastar og hverjar síst, og allt þar í milli. Lengi vel höfðu japönsku bílarnir yfirburði yfir aðra í rekstraröryggi. Það hefur verið að breytast nokkur undanfarin ár á þann veg að þýsku bílamerkin hafa verið að batna. Nú er svo komið að þeir þýsku eru þeir bílar sem sjaldnast stöðvast á vegum úti vegna bilana.
Lang algengustu útköllin sem vegaþjónustu ADAC berast eru vegna rafmagnsbilana. Þær geta verið af ýmsu tagi enda rafkerfi bíla orðin mjög flókin og viðamikil. Algengast er að rafall og rafgeymir bili, enda álag á hvorutveggja orðið verulegt, sérstaklega þó í bílum með start-stopp búnaði, en hann krefst m.a. sérstakra rafgeyma sem betur þola hið mikla álag en hefðbundnir blý/sýrugeymar. En gallinn við þessa sérstöku og nokkuð dýru geyma er að þeir endast takmarkað og þegar þeir gefa sig, þá gerist það gjarnan mjög skyndilega.
Í flokki minni smábíla eru Volkswagen Fox efstur (bilar sjaldnast). Á hæla hans koma Ford Ka, Citroën C1, Toyota Aygo og Peugeot 107. Þrír síðastnefndu bílarnir eru í raun einn og sami bíll, byggður af Toyota. Þeir sem verma botnsætin og oftast bila eru svo Smart Fortwo og Chevrolet Matiz.
Í næsta stærðarflokki fyrir ofan – flokki smábíla eru þeir bestu Nissan Micra, Mini, Peugeot 206 og Audi A1. Sístir eru Hyundai i20 og Honda Jazz, en rafgeymavandamál eru algeng í þeim síðarnefnda.
Aðrir góðir eru svo BMW X1, Citroën C4 Picasso og BMW 1 og sömuleiðist Audi Q5, BMW X3, Audi A5, Audi A6 og BMW 5-línan.
Greinilegt er að mikið gæðaátak í franska bílaiðnaðinum hefur skilað miklu því að franskir bílar eru meðal þeirra bestu í flestum flokkum. Sérstaka athygli vekur að allir Renault bílarnir fá ýmist einkunnina góður eða mjög góður. Það er mikil og góð breyting frá því sem var fyrir ekki svo mörgum árum. Svipaða sögu er að segja af A, B og C línunum frá Mercedes Benz.
Ekki er sömu sögu að segja af Ford Mondeo, Fiat Ducato og Volkswagen Eos. Þeir lenda allir meðal bíla sem teljast óáreiðanlegir. Sjá nánar hér.