Nýjustu niðurstöður árekstraprófunar Euro NCAP

Evrópska árekstrarprófunarstofnunin Euro NCAP greindi nýlega frá nýjustu öryggisrannsókn sinni á níu gerðum bíla. Euro NCAP er að mestu í eigu systurfélaga FÍB í Evrópu. Sjö af bílunum fengu ágætis einkunn og fimm stjörnur en tveir fengu aðeins þrjár stjörnur. Sjá niðurstöðurnar hér. 

Öryggið er í hávegum haft í sjö af þeim bílum sem Euro NCAP tók út í nýjustu öryggisprófun stofnunarinnar. Bílarnir öruggu sem fengu fimm stjörnur eru frá BMW, Mercedes-Benz, Renault, Skoda og Volkswagen.

Í blaði FDM sem eru systursamtök FÍB í Danmörku er haft eftir fulltrúa félagsins í Euro NCAP Sören W. Rasmussen að ánægjulegt sé hversu margir nýir bílar uppfylli auknar öryggiskröfur með því ná góðu skori og fimm stjörnum. Hann sagði þetta sýna glöggt að nýir bílar væru almennt öruggari nú til dags.

Tveir bílar fá aðeins þrjár stjörnur

Dacia Duster og Suzuki Swift fengu þrjár stjörnur. Það er áhyggjuefni að sjá ófullnægjandi niðurstöðu hjá þessum tveimur framleiðendum. Það er ekki hægt að búast við því að allir bílar nái toppeinkunn en vonbrigði að árangurinn hjá Duster og Swift sé ekki betri. Slakur árangur þessara tveggja bíla er aðalega vegna þess að við árekstur tveggja bíla beint á hvorn annan stenst yfirbygging þeirra ekki það álag með fullnægjandi hætti. Virkni öryggisbúnaðar hefði einnig mátt vera betri.

Svona margar stjörnur fengu bílarnir í prófuninni.

Tegund og gerð Stjörnur
BMW X2   ☆☆☆☆☆
Mercedes E ☆☆☆☆☆
Renault Espace ☆☆☆☆☆
Renault Rafale ☆☆☆☆☆
Skoda Superb ☆☆☆☆☆
Skoda Kodiaq ☆☆☆☆☆
VW Passat ☆☆☆☆☆
Dacia Duster ☆☆☆
Suzuki Swift ☆☆☆

 

Euro NCAP heldur úti fimm stjörnu öryggismatskerfi sem hjálpar neytendum, og fyrirtækjum að bera saman ökutæki út frá öryggi á auðveldan hátt.
Öryggiseinkunnin er ákvörðuð í kjölfar ítrekaðra prófana sem eru hönnuð og framkvæmd af Euro NCAP. Öryggisprófanirnar leiða í ljós raunverulegar sviðsmyndir um möguleg alvarleg slys og banaslys á ökumönnum og farþegum í bílum og öðrum vegfarendum.
Öryggiseinkunn getur aldrei að fullu fangað breytileika raunheimsins en búið er að sýna fram á að endurbætur á ökutækjum, ný tækni og auknar öryggiskröfur skila raunverulegum ávinningi til vegfarenda og evrópska samfélagsins í heild.