Nýlagðir vegakaflar ónýtir
Slitlag sem lagt var á Suðurlandsveg við Landvegamót um síðustu helgi er að hluta til ónýtt. Vegagerðin vinnur að rannsókn hvað fór úrskeiðis við lagningu slitlagsins sem einnig fór illa á kafla vestan við Kirkjubæjarklaustur. Talið er að tjónið nemi hátt í tuttugu milljónum króna.
Sýni af tjörunni, sem notað var, er til rannsóknar og að svo stöddu er ekki vitað með nákvæmri vissu hvað fór úrskeiðis. Ljóst er að lífolíu hafi vantað í kaflann sem lagður var vestan Kirkjubæjarklausturs með þeim afleiðingum að steinar tolldu ekki við slitlagið. Samfara þessu var mikið grjótkast og er óttast að einhverjar bifreiðar hafi orðið fyrir skemmdum.
Fram kemur í samtali á Vísi við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB, að ákvæði sé í vegalögun þar sem segir að ef um vangá vegahaldara er að ræða, í þessu tilviki Vegagerðarinnar, þá geti það skapað bótaábyrgð.
Ökumönnum sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni á þessum köflum eiga að fara til síns tryggingafélags og gera skýrslu og sækja kröfu á Vegagerðina. Ökumönnum er einnig bent á að hafa samband við skrifstofu FÍB til að afla sér frekari ráðleggingar.