Góð bílasala fyrstu fjóra mánuði ársins
Bílasala fyrstu fjóra mánuði ársins er með ágætasta móti en nýskráningar í fólksbifreiðum er rúm 60% meiri samanborið við sama tíma á síðasta ári. Þegar rýnt er í nýskráningar voru þær flestar í mars, alls 1.451, en í apríl voru þær 1.403. Þetta kemur fram í tölum frá Bílagreinasambandinu.
Langflestar nýskráningar eru í nýorkubílum en fyrstu fjóra mánuði ársins námu þær alls 79,5%. Hreinir rafbílar tróna í efsta sætinu með alls 34.9% hlutdeild. Tengiltvinnbílar eru með 27,2% hlutdeild og hybridbílar 17,4%. Bensínbílar voru 10,4% og dísilbílar 10,1%.
Af einstökum bílategundum er Toyota í efsta sætinu með 17% hlutdeild fyrstu fjóra mánuði ársins. Hyundai er í öðru sæti með 10,3% hlutdeild og Kia í þriðja sætinu með 10,1%. Í næstu sætum koma Mitsubishi með 8,4%, Tesla með 7,3% og Volvo með 4,7%.
Fyrstu fjóra mániðu ársins voru nýskráningar til almennra notkunar alls 59,2% og til bílaleiga 39,9%.