Nýr Benz sportbíll
Nýr sportbíll, Mercedes Benz CLC, verður sýndur að hluta á sérstakri tískuviku Mercedes Benz í Berlín 27.-31. janúar nk. Á tískuvikunni verða aðalnúmerin Benzinn og ofurfyrirsætan Eva Padberg.
Bíllinn verður afhjúpaður til hálfs og tæplega þó það, í sérstöku sýningaratriði í upphafi tískuvikunnar þar sem bæði stúlkan og bíllinn verða í fyrirrúmi. Í frétt frá Mercedes Benz segir að tilgangurinn með sýningaratriðinu sé sá að skapa áhuga fyrir nýja bílnum og að fá góðar myndir og annað hráefni í kynningarefni fyrir bílinn áður en raunveruleg frumsýning á honum fer fram og markaðssetning hefst.
Á myndinni sem hér birtist sést ofurfyrirsætan Eva Padberg í miklum og flaksandi gulum kjól sem hylur bílinn að mestu að framendanum undanteknum.
Eva Padberg hefur frá því í maí 2007 verið eins konar sendiherra Mercedes Benz fólks- og sportbíla á tískusýningum og tískutengdum viðburðum um allan heim.