Nýr bíll á 160 þúsund

http://www.fib.is/myndir/Tata_1_lakh.jpg
Tata OneLakh.

Ódýrasti bíll heims verður frumsýndur á alþjóðlegri bílasýningu sem opnuð verður í Nýju Dehli á Indlandi á morgun. Bíllinn er frá framleiðandanum Tata í Indlandi og sala á honum hefst í sumar. Verðið á heimamarkaði verður um 155 þúsund ísl. kr.

Þessi hræódýri bíll er hugsaður út frá sömu hugmynd og lá að baki upphaflega Volkswagenbílnum-bjöllunni. Hún er sú að framleiða einfaldan en traustan bíl fyrir alþýðuna. Hann hefur hlotið nafnið Eins lakhs bíll en eitt lakh er jafngildi hundrað þúsund rúpía sem er um 155 þúsund ísl. kr. Þessa stundina er aðalfarartæki indverskrar alþýðu skellinöðrur og minni mótorhjól.

Samkvæmt fréttum af þessum bíl er um að ræða raunverulegan smábíl sem svipað og „up!“-hugmyndarbíll Volkswagen er með vélinni afturí og drifi á afturhjólunum. Í fystunni verður Tata One Lakh með 600 rúmsm tveggja strokka bensínvél en síðar er von á tveggja strokka 700 rúmsm dísilvél. Gírkassinn verður stiglaus sjálfskipting.

Tata er indversk fjölskylda sem rekur hundruð fyrirtækja sem framleiða allt mögulegt, þar á meðal bíla og úr og klukkur. Fyrirtækið keypti nýlega Jaguar og Land Rover af Ford. Talsmaður fyrirtækisins heitir Ratan Tata. Hann er einn af erfingjum viðskiptaveldisins og menntaður sem arkitekt í Bandaríkjunum. Hann er sagður hafa lengi alið þann draum með sér að koma indverskum almenningi af tveimur yfir á fjögur hjól – gera bílinn að almenningseign í Indlandi. Hann eigi hugmyndina að One lakh bílnum.