Nýr Chrysler jeppi
Samsetningarverksmiðja Chrysler/Fiat í Toledo í Ohio verður stöðvuð þann 16. Þessa mánaðar svo ráðrúm gefist til að stilla hana af fyrir framleiðslu á nýrri gerð jeppa sem byggður er að hluta á tækni frá Fiat. Þessi nýi jeppi kemur í stað Jeep Liberty, en framleiðslu á honum verður hætt. Frá þessu er greint á Netfréttasíðu Automotive News.
Nýi jeppinn er byggður á grunnplötu Alfa Romeo Giulietta en hún verður einnig burðarásinn undir fleiri nýjum bílgerðum sem ætlunin er að framleiða bæði sem Chrysler og Fiat. Þótt Jeep Liberty hafi ekki verið framleiddur lengi þá er ekki hægt að segja að hann hafi slegið í gegn. Salan á honum hefur alla tíð verið mun minni en upphaflegar vonir stóðu til. En menn eru bjartsýnir á að nýi sameiginlegi Fiat/Chrysler jeppinn muni falla kaupendum betur í geð því að vegna framleiðslu hans og breytinga á verksmiðjunni í Toledo er varið 1,7 milljörðum dollara og 1.100 nýir starfsmenn verða ráðnir til að byggja nýja jeppann.