Nýr Fiat 500
Fiat 500 er nú að koma á markað með tveggja strokka vél. 50 ár er síðan gamli Fiat 500 var framleiddur með tveggja strokka vél og margir sem komnir eru vel yfir miðjan aldur muna enn þann bíl. Hann var með vélinni afturí og þótti afar sparneytinn á bensínið enda var hægt að komast á honum allt að 25 kílómetra á hverjum lítra.
Nýi Fiat 500 með nýju tveggja strokka vélinni er mjög ólíkur þeim gamla, nema þá helst í útliti. Vélin er komin fram í og drifið er á framhjólunum. Nýja vélin er miklu öflugri en sú gamla og á þó að koma nýja bílnum helduir lengra á hverjum lítra og sá gamli komst árið 1960. Þó er sá nýi næstum helmingi þyngri. Það er því svona hlutfallslea séð himinn og haf í milli gömlu tveggja strokka vélarinnar og þeirrar nýju. Sú nýja er miklu fullkomnari og nýtnari á eldsneytið og ef hún yrði sett í gamla létta Fiatinn kæmist hann sjálfsagt 40 kílómetra á lítranum. Nýi Fiat 500 er fimm stjörnu bíll í árekstursprófi EuroNCAP en sá gamli myndi líklega ekki einu sinni ná einni stjörnu í slíku prófi. Og þetta stórbætta öryggi hefur auðvitað kallað á meira stál og þar með meiri þyngd. Þessvegna er hann svo miklu þyngri en sá gamli var.
Árið 1960 var Ólafur Thors forsætisráðherra Íslands í Viðreisnarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks. Og Kalda stríðið og kjarnorkustríðsóttinn var í algleymingi og náði hámarki með Kúbudeilu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þetta var árið sem Opel kom fram með gerbreytt útlit og Opel Rekord birtist með risastóra panorama-framrúðu og Jóhann S. Hannesson skólameistari á Laugarvatni fékk einn fyrsta skutbílinn af þeirri gerð sem til landsins kom.
Nýja tveggja strokka Fiatvélin er með svokallaðri Multi-Air tækni sem Fiat hefur fundið upp. Í henni felst að innsogsventlarnir í heddinu opnast og lokast óháð knastásnum. Það er því gangtölva vélarinnar sem stjórnar ventlunum í takti við álag og snúningshraða vélarinnar í því skyni að nýta bensíndropana sem allra best. Árangurinn er verulega meira afl og verulega minni eyðsla.
Fiat 500 1960 | Fiat 500 2010 | |
Vél | Afturí | Framí |
Vélarstærð | 479 rúmsm | 875 rúmsm |
Eldsneytis-mötun | Blöndungur | Innsprautun |
Afl | 13,5 hö/4000 sn. | 85 hö/5500 sn. |
Vinnsla | 30 Nm/3200 sn. | 145 Nm/5500 sn. |
Kæling | Loftkæling | Vatnskæling |
Eyðsla | 22,2 km á lítra | 25 km á lítra |
Hámarkshraði | 85 km/klst. | 173 km/klst. |
Eigin þyngd | 499 kg | 865 kg |
Lengd/-breidd/hæð | 297/132/132 sm | 354/162/148 sm |