Nýr Ford Mondeo

http://www.fib.is/myndir/Mondeo_kombi_330.jpg
Ford Mondeo Skutbíll - nýjasta gerðin.

Til stendur hjá Ford að frumsýna evrópskum blaðamönnum nýja kynslóð Ford Mondeo um miðja þessa viku. En áður en að þessari frumsýningu kemur hefur Ford „lekið“ myndum af nýja bílnum til fjölmiðla, einkum þó af skutbílnum. Með vorinu verða allar gerðir Mondeo fáanlegar en þær verða fjögurra dyra stallbakur, fimm dyra hlaðbakur og fimm dyra skutbíll. Sú gerð sem mest verður í lagt verður með fimm strokka túrbínuvélinni frá Volvo sem er 220 hestafla.

Hinn opinberi frumsýningardagur er nk. miðvikudagur, 14. febrúar en af þeim myndum sem lekið hafa út af nýju gerðinni er sterkur svipur með Mondeo og hinum nýja S-Max sem þegar er farinn er að sást á íslenskum vegum. Auto Motor & Sport segir að auk þekktra véla frá Ford og Volvo sem úr verði að velja fyrir kaupendur hins nýja Mondeo þá verði ein alveg ný í boði. Sú sé fjögurra strokka 2,3 l bensínvél sem er 161 ha. Við hana verði sex hraða sjálfskipting.

Mikið hefur verið lagt í að gera nýja Mondeóinn þægilegri en þann gamla og hljóðlátari. Nýtt afturhjólastell hefur verið hannað á sérstaka grind, með fjöðrum og öllu saman og er sérstaklega einangrað frá yfirbyggingunni til að draga úr veggný. Öll hljóðeinangrun er sögð mun meiri en áður og bíllinn sagður verulega hljóðlátari en eldri gerðin.

ESP stöðugleikakerfi verður staðalbúnaður í öllum fjórum útfærslum hins nýja Mondeo. Útfærslurnar heita Edge, Zetec, Ghia og Titanium X.