Nýr gengislánadómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur
Fyrir hádegi í dag var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Lýsingar vegna vanskila á gengistryggðu bílaláni. Lántakandi tók haustið 2007 um 3,6 milljóna króna gengistryggt lán til að fjámagna kaup á Cherokee bifreið. Upphaflega var mánaðarleg afborgun lánsins nærri 60.000 krónur. Lántakandinn skilaði bifreiðinni í ágúst 2008, þegar mánaðarleg afborgun hafði tvöfaldast.
Niðurstöðu í þessu máli hefur verið beðið með eftirvæntingu í kjölfar tveggja gegngislánadóma Hæstréttar 16. júní sl. Í þeim málum var niðurstaðan sú að gengistryggingin væri ólögleg þar sem lánin voru tekin í íslenskum krónum og afborganir einnig í íslenskum krónum. Lögmenn fjármögnunarfyrirtækjanna settu ekki fram neinar varakröfur í júní málunum varðandi vexti eða verðtryggingu í stað gengistryggingarinnar.
Aðalkrafa Lýsingar var að miða skyldi uppgjör lánsins við verðtryggingu og vexti samkvæmt gjaldskrá fyrirtækisins. Til vara voru settar fram fimm aðrar kröfur varðandi fjármagnskostnað við uppgjör skuldarinnar. Lántakandinn fór fram á sýknu af öllum kröfum og krafðist þess að samningsvextir einir skyldu standa óbreyttir með hliðsjón af dómum Hæstaréttar í júní um ólögmæti gengistryggingar.
Hérðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að samningsvextir ölöglegra gengistryggðra lána standi ekki óhaggaðir án gengistryggingar. Fallist var á eina varakröfu Lýsingar um að lánið beri óverðtryggða vexti Seðlabankans. Fram hefur komið í fjölmiðlum að dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar.
Nú tekur við viðbótar óvissutími fram að því að Hæstiréttur kveður upp sinn dóm. Ljóst er að margir mánuðir munu líða áður en þetta mál verður tekið upp í Hæstarétti og endanlegur dómur upp kveðinn. Ósennilegt er að stjórnvöld grípi inn í málaframvinduna fram að dómi Hæstaréttar.