Nýr Hleðslugarður Orku náttúrunnar hefur opnað á Glerártorgi
Orka náttúrunnar hefur opnað stórglæsilegan Hleðslugarð á Glerártorgi. Þar geta viðskiptavinir Orku náttúrunnar hlaðið á 12 nýjum tengjum með afkastagetu allt að 480 kW á hverju tengi.
Á stöðvunum er góður upplýsingaskjár sem gerir alla upplifun frábæra og hægt er að velja leiðbeiningar á íslensku sem og öðrum tungumálum. Í Hleðslugarðinum var aðgengi fyrir öll haft í algeru fyrirrúmi.
„Við hjá Orku náttúrunnar erum einstaklega stolt af nýja Hleðslugarðinum á Glerártorgi sem og þeirri vegferð sem við erum á í því að stækka hleðslunet ON og leggja okkar af mörkum til orkuskiptanna. Hleðslugarðurinn er hluti af 10 ára afmælisuppbyggingu ON en sambærilegur Hleðslugarður með aukinni áherslu á fjölskylduvænt umhverfi opnaði nýverið í Öskjuhlíð í Reykjavík og annar slíkur opnar á næstu vikum við Digranesgötu í Borgarnesi. Viðskiptavinir ON eiga því von á reglulegum fréttum af opnun hleðslustöðva á nýjum staðsetningum sem eru fjölskylduvænni, þægilegri og með fleiri tengjum til að lágmarka bið,” segir Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.
Stutt er síðan ON tvöfaldaði tengin við Hof og mun sú staðsetning áfram vera í rekstri enda afar vinsæll áningarstaður þegar kemur að hleðslu rafbíla á Akureyri. Þess má geta að hægt er að nálgast ON lykla hjá Berjaya hótelinu og þjónustuver ON er opið allan sólarhringinn ef þörf er á aðstoð við að hefja hleðslu.