Nýr hreinsibúnaður fyrir eldri dísilvélar
14.07.2005
Nýjustu reglur sem taka gildi í Evrópu 2009 um leyfilegt magn mengunarefna í útblæstri bíla eru það strangar að eldri gerðir dísilvéla munu hreinlega lenda á bannlista ef ekkert yrði að gert. Nú lítur út fyrir að svo verði ekki því að fyrirtæki í Gautaborg í Svíþjóð sem heitir ETG eða Emission Technology Group AB hefur búið til tæknibúnað sem gerir gamlar dísilvélar fullgildar gagnvart nýju mengunarkröfunum og fæst auk þess á verði sem gerir mögulegt að nýta eldri tækin lengur en ella hefði fyrirsjáanlega verið mögulegt.
Áhugi almennings á dísilvélum hefur aukist mjög síðustu mánuði vegna þess hve neyslugrannir þeir eru. Það er ekki að furða eins og heimsmarkaðsverðið er orðið á olíuafurðum. En vandinn hefur verið sá að besti hreinsibúnaðurinn fyrir útblásturinn hefur einungis verið fáanlegur fyrir nýjustu samrásarinnsprautunarvélarnar.
Þessu er Gautaborgarfyrirtækið nú að breyta. Hjá því hafa menn þróað nýja hreinsitækni sem dugar vel á eldri dísilvélar. Tæknina nefna þeir Euru 5 System. Hún er í mjög grófum dráttum þanning að útblásturinn er hreinsaður á tvennan hátt; fyrst fer hann í gegnum keramiksíu (hvarfakút) sem grófhreinsar hann. Þá tekur við svokallaður SCR efnahvarfi sem í er sérstök efnablanda til að fella út kolvetnisoxíð, köfnunarefnissambönd og öragnir. Kerfið hreinsar meir en 80% þessara efna úr útblæstrinum. Eftir hreinsunina er útblásturinn nánast ósýnilegur og hin dæmigerða dísilreykjarlykt varla finnanleg.
Hollenska vottunarfyrirtækið RDW hefur þegar vottað búnaðinn sem þýðir að hann dugar til að eldri gerðir dísilvéla standist þann mengunarstaðal sem tekur gildi í Evrópu árið 2009. Framleiðsla er hafin og eftirspurnin er veruleg.
Því miður er búnaðurinn enn sem komið er einungis hugsaður fyrir stórar vélar eins og eru í vörubílum, rútum og vinnuvélum.