Nýr Infiniti Q60 í Detroit
– Með þessum nýja Q60 erum við aftur byrjuð að framleiða gæðavagna í tveggja dyra sportútgáfu, sagði framkvæmdastjóri Infiniti Americas þegar hann afhjúpaði hinn nýja og mjög breytta Q60 á bílasýningunni í Detroit sl. sunnudag ásamt Carlos Ghosn forstjóra Renault-Nissan. Infiniti er sem kunnugt er lúxusbílamerki Nissan og hefur allt frá árinu 1989 þegar fyrstu bílarnir undir þessu tegundarheiti voru kynntir, átt trygga fótfestu á Bandaríkjamarkaði.
Hvorki Infiniti, né Acura, lúxusmerki Honda hafa náð fótfestu á íslenska bílamarkaðinum en það hefur Lexus hins vegar. Sömu sögu er reyndar að segja um hinn evrópska bílamarkað sem heild. Þessari stöðu vill Nissan nú breyta og fikrar sig varfærnislega inn í nokkur Evrópuríki með jepplinginn Infiniti QX3. Sá bíll er reyndar í grunninn Mercedes A og er QX3 þar með einn af ávöxtum talsverðrar og ört vaxandi samvinnu Daimler og Nissan-Renault samsteypunnar.
Hinn nýi Infiniti Q60 á bílasýningunni í Detroit er arftaki G- línunnar hjá Infiniti en framleiðsla á henni nær aftur til ársins 2008 en hefur nú verið hætt. Q60 er byggður á nýjum undirvagni sem sagður er vera mikil framþróun af undirvagninum undir Infiniti Q50 sem hefur verið best seldi Infiniti bíllinn í Bandaríkjunum síðustu árin.
Hinn nýi Q60 mun aðeins fást sjálfskiptur. Sjálfskiptingin er sjö hraðastiga í þessum nýja bíl sem bæði er breiðari og lægri en fyrirrennarinn – G-línan var. Þær vélar sem í boði verða eru 2ja l, 4 str túrbínuvél, 208 hö. Næsta er tvegja túrbína V6 vél, 3 l að rúmtaki, ýmist 300 eða 400 hestafla. Q60 er afturhjóladrifinn en fáanlegur með sítengdu aldrifi.