Nýr Jeep Cherokee
Eftir að fáeinar njósnamyndir hafa verið að birtast í fjölmiðlum hingað og þangað hefur Chrysler nú sent út fyrstu opinberu myndirnar af hinum nýja Jeep Cherokee. Bíllinn er gerbreyttur frá fyrri gerðum - svo mikið að sumir bílahugsuðir óttast að gamlir aðdáendur tegundarinnar jafnvel fælist frá. En vissulega getur hann líka lokkað nýja kaupendur. En allavega er breytingin mjög róttæk.
Hér á Íslandi hefur Jeep Cherokee og Jeep Grand Cherokee verið ein vinsælasta jeppategundin í fjölda ára og það eins þótt að ekkert sé umboðið í hefðbundnum skilningi. En þrátt fyrir það hefur viðgerða- og varahlutaþjónusta verið til staðar í landinu og kunnasti þjónustuaðilinn er trúlega Bíljöfur.
Náin tengsl Fiat og Chrysler leyna sér ekki í nýja Cherokee jeppanum. Hin tæknilega uppistaða hans er sótt að verulegu leyti til Fiat (Alfa Romeo) og er undirvagninn t.d. að miklu leyti fenginn frá Alfa Romeo Guiletta og Dodge Dart sem eru að mestu leyti sami bíll. Í ytra útliti er Cherokee hins vegar alveg nýr og nánast það eina sem eftir er frá eldri gerðum er útlitið á grillinu með sínum sjö loftlúgum til að kæla vélina.
Nýi bíllinn er miklu léttbyggðari en eldri bílarnir voru. Með V6, 3,2 l bensínvélinni er hann sagður bæði viðbragðssneggri en nokkru sinni fyrr, með miklu betri aksturseiginleika og 45% minni bensíneyðslu en fyrri kynslóðin var. Hann mun ennfremur fást með minni og sparneytnari fjögurra strokka bensínvél og vafalaust einnig með dísilvélum, a.m.k. í Evrópu þegar fram líða stundir.
Hinn nýi Jeep Cherokee verður frumsýndur á bílasýningunni í New York í aprílmánuði. Þá verður nánar greint frá innviðum bílsins, eins og drifbúnaði, fjöðrunarkerfi o.fl. slíku, sem og því hvenær hans er að vænta á Evrópumarkað.