Nýr Jeep Renegade
Ein algengasta og vinsælasta jeppategundin á Íslandi um langan aldur er án sérstaks innflytjanda og söluaðila bílanna og varahluta fyrir þá. Þetta er Jeep.
Nokkrir aðilar flytja tegundina að vísu inn. Oftast með þeim hætti að þeir kaupa bílana héðan og þaðan – gjarna af erlendum bílasölum sem hafa ofáætlað sinn markað og pantað inn fleiri bíla en þeir gátu selt. Bílarnir eru því oftar en ekki svokallaðir eftirársbílar – svotil nýir og óeknir en kannski ekki alltaf af allra nýjustu árgerð. Nokkur bílaverkstæði sjá síðan um að þjónusta bílana og hafa komið sér upp varahlutalager og pöntunarþjónustu og fer engum sögum af því að eigendur Jeep eigi sérstökum í vandræðum vegna þessa.
Jeep er nú hluti bandaríska bílaframleiðandans Chrysler sem fyrir fáum árum komst í eigu Fiat á Ítalíu. Samruninn hefur reynst báðum vel, sérstaklega í tæknilegu tilliti og hefur getið af sér fjölmargar nýjar gerðir beggja vegna Atlantshafsins. Ein þessara nýju gerða er jepplingurinn Jeep Renegade sem ekki síst er ætlað að höfða til Bandaríkjamanna.
Jeep Renegade þó raunverulega enginn Ameríkubíll heldur er hann Fiat, byggður á sama grunni og jepplingurinn Fiat 500X og með sömu vélum og drifbúnaði og meira að segja líka framleiddur á Ítalíu – og í Brasilíu. Það er þannig helst í ytra útliti sem Renegade líkist Jeep-jeppunum en telst þó tæpast til jeppa, heldur jepplinga, enda þótt mörkin milli jeppa og jepplinga séu stöðugt að þynnast út. Ódýrustu útgáfur Renegade eru einungis framhjóladrifnar. Tölvustýrt fjórhjóladrifkerfið er frá hinu sænska Haldex og fyrirfinnst í ýmsum öðrum jepplingum eins og t.d. Mazda CX. Vélin er 160 ha. Fiat túrbínudísilvél. Við hana er svo sex gíra gírkassi sem fæst bæði handskiptur en einnig með tvöfaldri kúplingu sem skiptir sjálfvirkt um gíra (sbr DSG skiptingarnar hjá VW). Sex gíra kassinn fer ágætlega saman við vélina, bíllinn vinnur ágætlega og er góður í akstri, rásfastur og með stinna yfirbyggingu, rúmgóður og þægilegur og sparneytinn. Eyðslan í blönduðum akstri er uppgefin rúmlega 5 l á hundraðið en í reynsluakstri í Þýskalandi sem seint getur kallast sparakstur, reyndist meðaleyðsla vera 6,5 lítrar sem teljast má mjög hóflegt.
Haldex fjórhjóladrifkerfið er að sönnu dæmigert fólksbíla- og jepplinga-aldrif sem fyrst og fremst er til þess að gera bíla stöðugri í akstri á venjulegum vegum, sérstaklega í hálku og snjó. Það er hreint ekki dæmigert jeppadrif með bæði lágu og háu drifi fyrir erfiðar torfærur. En Renegade fæst reyndar með slíku alvöru jeppa-fjórhjóladrifi.
Með því kallast bíllinn Jeep Renegade Trailhawk og er búnaðurinn þekktur úr öðrum Jeep-gerðum. Við hann er þá hefðbundin sjálfskipting. Gallinn er bara sá að Trailhawk drifbúnaðurinn hækkar verð bílsins verulega og svo mjög að hann er með því farinn að nálgast ískyggilega stærri og dýrari Jeep-gerðir eins og Cherokee í verði.
Jeep Renegade er smájepplingur í samkeppni í Evrópu við bíla eins og Opel Mokka, Mazda CX-3, Mitsuibishi ASX, Suzuki Vitara, Mini Countryman, Skoda Yeti o.fl. Hvað útlit varðar er Renegade eiginlega jeppalegastur og sýnist talsvert stærri en hann er.
Nokkrar upplýsingar
Líklegt verð á Íslandi: Ca. 4 milljónir kr. ( 3,2 millj. fyrir 2X4 gerðina).Lengd/breidd/hæð: 4,24/1,81/1,68 m.Leyfileg þyngd tengivagns: 1.500 kg.Euro NCAP stjörnur: 50-100: 9,5 sekHmarkshraði: 182Farangursrými: 351/1510 l.Helstu keppinautar: Opel Mokka, Mazda CX-3, Mitsuibishi ASX, Suzuki Vitara, Mini Countryman, Skoda Yeti o.fl.