Nýr jeppi frá Audi sýndur á laugardag

http://www.fib.is/myndir/AQ7_003.jpg
Audi Q7.

HEKLA frumsýnir um helgina nýjan Audi Q7 – fyrsta jeppann úr smiðju Audi verksmiðjunnar. FÍB blaðið tók í bílinn í vikunni og ók honum hálfan Hafravatnshringinn. Q7 reyndist vera hreinræktaður lúxusjeppi, aflmikill, hraðskreiður og stöðugur á vegi, og búinn öllum nýjasta og besta búnaði sem slíka bíla mega prýða. Af stuttum kynnum má ráða að mikið er í þennan bíl lagt enda er honum ætlað að keppa við valinkunna eðalbíla í sama flokki – bíla eins og Range Rover, Lexus, Porsche Cayenne, Volvo og VW Touareg.

Audi Q7 var reyndar svona eins og frum-frumsýndur í Listasafni Reykjavíkur fyrr í vetur. Þá var framleiðsla á honum varla hafin en á þeirri sýningu var þó hægt að leggja inn pantanir, eins og á öðrum slíkum forsýningum víðar um álfuna. Á fimmta tug manna munu þá hafa lagt inn pantanir hér á landi og á Evrópuvísu voru slíkar pantanir sjötta tug þúsunda. En nú er Q7 kominn til Íslands og almenn sala er að hefjast.

Hægt er að velja um tvær vélastærðir í Audi Q7. Önnur er ný 4,2 lítra V8 bensínvél með beinni FSI®-strokkinnsprautun. Hún er 350 hestöfl og vinnslan er 440 Newtonmetrar. Hin vélin sem um er að velja nú í byrjun landnáms Q-7 á Íslandi er 3.0 TDI® sex strokka dísilvél. Hún er 233 hestöfl og vinnslan er heilir 500 Newtonmetrar. Við báðar vélargerðir er sex gíra tiptronic®-sjálfskipting.

Ríkulegur staðalbúnaður er í Audi Q7, búnaður eins og quattro® drifrás með sítengdu aldrifi og læstu aldrifi, ABS bremsukerfi, aksturstölva, Bi-Xenon aðalljós, Bluetooth handfrjáls símabúnaður, ESP stöðugleikastýring og fjarlægðarskynjari. Hann fæst með fimm eða sjö sæta innréttingu og hægt er að raða sætum og hleðslurými upp á samtals 28 mismunandi vegu.
http://www.fib.is/myndir/AQ7_002.jpg
Sýningin á nýja lúxusjeppanum á Íslandi, Audi Q7 verður í húsakynnum HEKLU Laugavegi 174 og stendur yfir frá kl. 10:00 – kl. 17:00 á laugardag.