Nýr jepplingur frá Ford

http://www.fib.is/myndir/Ford_iosis_.jpg
Ford Iosis hugmyndarbíllinn. Ford Kuga verður svipaður að útliti.

Næsta vor hefst fjöldaframleiðsla á nýjum jepplingi hjá Ford í Evrópu. Tölvugerðar myndir af bílnum eru komnar í umferð í evrópskum bílatímaritum en eiginlegar myndir af bílnum hafa enn ekki birst. Nýi jepplingurinn fær nafnið Ford Kuga og var frumgerð hans sýnd á bílasýningunni í París í fyrrahaust undir nafninu Iosis X. Ford Kuga er byggður á sömu botnplötu og Land Rover Freelander og Volvo XC60 sem einnig er að fara í fjöldaframleiðslu innan nokkurra mánaða.

Hugmyndabíllinn Iosis X vakti mikla athygli á Parísarsýningunni í fyrra og þótti athyglisverður, ekki síst fyrir frumleika í útliti og innréttingum. Nú er að koma í ljós að hinn nýi Kuga verður ekki svo fjarri hugmyndarbílnum fyrrnefnda. Hann verður frumsýndur að mestu í því formi sem ætlunin er að fjöldaframleiða hann í, á bílasýningunni í Frankfurt í september í haust. Sjálf framleiðslan mun fara fram í verksmiðju Ford í Saarlouis í Þýskalandi en hún hefst í byrjun nýs árs.