Nýr „lítill“ Cadillac ATS
Þótt bandarísku bílaframleiðendunum í Detroit hafi ekki gengið sérstaklega vel að fá Evrópubúa til að kaupa nýja Detroit-bíla þá skal enn reynt. GM hefur nú kynnt nýjan Cadillac sem beinlínis er stefnt til höfuðs BMW 3-línunni. Þetta er Cadillac ATS.
Hann er sérstaklega hannaður og stilltur af hvað varðar afl, gírahlutföll og þyngdardreifingu svo hann nálgist sem mest aksturseiginleika BMW 3 línunnar eða geri jafnvel gott betur. Þessi vinna fór fram á Nürburgring kappakstursbrautinni frægu í Þýskalandi ekki langt frá Frankfurt-Hahn flugvellinum sem margir Íslendingar kannast við. Útkoman er sportlegur fólksbíll af millistærð með tveggja lítra 274 ha túrbóbensínvél. Spurningin er síðan hvort betur muni ganga í Evrópu en gengið hefur með bíla eins og Chevrolet Camaro, Corvette, Cadillac BTS og fleiri GM bíla áður.
Hinn nýi Cadillac ATS var frumkynntur á Detroit bílasýningunni um nýliðna helgi og þar þurfti enginn að fara í grafgötur með það að bílnum er beinlínis stefnt gegn BMW 3 línunni og Audi A4 sem eru mest seldu bílar í heiminum í dag í milliflokki fólksbíla, sérstaklega þó BMW bíllinn.
Cadillac ATS er eins og BMW afturhjóladrifinn, byggður á svonefndri Alpha-grunnplötu frá Holden, dótturfyrirtæki GM í Ástralíu. Þessi Alpha grunnplata er sögð bæði léttbyggð og sterk og ATS sé sé þar með léttbyggður, með lágan þyngdarpunkt og nógan styrk til að þola öflugar vélar, hvort heldur fjögurra, sex eða átta strokka og jafnvel fjórhjóladrif, sem væntanlega verði í boði seinna meir.
Grunngerð Cadillac ATS verður með 2,5-lítra, 203 ha. bensínvél en í þessari gerð er mikil áhersla lögð á sparneytni. Næsta gerð fyrir ofan er svo með fyrrnefndri 274 ha, 353 Nm. Toppgerðin og sú dýrasta er svo með 3,6 l V6 bensínvél sem er 322 hö og með 362 Nm vinnslu. Gírkassarnir eru svo sex gíra, annaðhvort hand- eða sjálfskiptir.
Cadillac ATS er væntanlegur á Bandaríkjamarkað með sumrinu og í Evrópu með haustinu. Reikna má með því að þá verði góð dísilútgáfa bílsins tilbúin, en dísilútgáfa er talin forsenda þess að markaðssetning í Evrópu heppnist.