Nýr lúxus-Opel og nýr rafbíll
Opel í Þýskalandi sem alfarið er í eigu General Motors, er með nýjan lúxusbíl á teikniborðinu, stærri og meiri en Insignia sem nú er toppbíllinn hjá Opel. En til viðbótar þá er líka á teikniborðinu nýr rafbíll, minni en Opel Ampera/Chevrolet Volt. Þetta kom fram í viðtali í þýska dagblaðinu Welt am Sonntag við nýjan forstjóra Opel; Karl-Friedrich Stracke.
Opel Insignia 2011. |
Nýi lúxusbíllinn verður að sögn forstjórans bíll sem ekki er hægt að flokka í neinn þann flokk bíla sem nú fyrirfinnast. Þannig má því segja að honum sé ekki beinlínis stefnt til höfuðs stærstu bílunum frá BMW, Mercedes og Audi. Hann verður þó fjórhjóladrifinn og því einskonar upphafsbíll nýs jepplingaflokks að sögn Stracke.
Stefnt er að því að hans sögn að nýi bíllinn komi á markað eftir fjögur til fimm ár. En auk þess að koma fram með nýjan bíl í lúxusflokki stefnir Opel að því að koma um sama leyti fram með nýjan rafknúinn smábíl af svipaðri stærð og Opel Corsa eða Agila, eða nokkru minni en Opel Ampera sem kemur á markað á þessu ári.
Stracke lýsir einnig í viðtalinu áhuga á því að leita markaða fyrir Opel utan Evrópu, en Opel/Vauxhall hafa hingað til eingöngu verið á Evrópumarkaði. Hann kvaðst stefna á sölu um 150 þúsund bíla utan Evrópu innan næstu þriggja ára og að móðurfélagið, GM, hefði samþykkt þær fyrirætlanir.