Nýr Lúxusbíll frá Hyundai

http://www.fib.is/myndir/Genesis-Hyundai.jpg
Hyundai Genesis.

Hyundai í Kóreu hefur kynnt nýjan lúxusbíl í Bandaríkjunum sem nefnist Genesis. Honum er ætlað að keppa við lúxusbíla eins og BMW 750i, Audi A8 og Lexus GS450. Verðið á Genesis er hins vegar helmingi lægra. Sambærilegur lúxusbíll frá keppinautunum sem kostar tæpar fjórar milljónir í Bandaríkjunum mun kosta hjá Hyundai jafnvel undir tveimur milljónum að sögn Auto Motor & Sport.

Hyundai Genesis er afturhjóladrifinn með öflugar V6 og V8 bensínvélar. V6-vélarnar er eru 3,3 og 3,6 lítrar a rúmtaki, sú fyrri er 268 ha. og sú síðarnefnda 289 hö. En sé það nú ekki nóg afl fæst einnig 4,6 lítra V8, 368 hestafla vél með 6 hraða ZF sjálfskiptingu. Með þessum búnaði er Genesis aðeins sex sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið sem mun vera eitthvað sprækara en fyrrnefndir keppinautar ráða við.

Bíllinn mun búinn öllum fullkomnasta og besta öryggisbúnaði sem völ er á. ESC stöðugleikabúnaður er að sjálfsögðu staðalbúnaður ásamt átta loftpúðum og rafeindastýrðum hnakkapúðum sem Hyundai fullyrðir að vera fyrstur með sem staðalbúnað í bíl. Hjóla- og fjöðrunarbúnaður er sagður af nýrri gerð og háþróaður og í heild sé bíllinn sá tæknilega fullkomnasti sem Hyundai hafi nokkru sinni byggt.

Hljóðkerfið í bílnum er frá Lexicon. Það mun byggt á svokallaðri Logic 7 tækni og hefur til þessa að eins fengist í Rolls-Royce Phantom, þar til nú að það er komið í Hyundai Genesis.

Til að bandarískir kaupendur þori að treysta á bílinn er þeim boðin full ábyrgð á bílnum í fimm ár eða 60 þúsund mílna akstri og til viðbótar 10 ára eða 100 þúsund mílna takmörkuð ábyrgð á gangverki bílsins. Þá fylgir ókeypis vegaaðstoð allan sólarhringinn fyrstu fimm árin. Sala á bílnum hefst í Kóreu á næstunni en í Bandaríkjunum frá og með vorinu. Hvort eða hvenær Genesis kemur á Evrópumarkað er ekki ljóst.