Nýr Mazda 2 á Bandaríkjamarkað

http://www.fib.is/myndir/Mazda2.jpg
Hinn glænýi Mazda 2.

Bandaríkjamenn virðast smám saman vera að færa sig yfir í minni bíla, svipaða þeim sem Evrópubúar aka á dags daglega. Með hækkandi eldsneytisverði og vaxandi hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa hefur eftirspurn eftir stóru amerísku bílunum minnkað jafnt og þétt og skemmst er að minnast þess að hinn fimm ára gamli evrópski bíll Opel Vectra sem framleiddur er í Þýskalandi var útnefndur bíll ársins í Bandaríkjunum. Þar er hann seldur undir merkjum GM undirmerkisins Saturn.

Ford hefur fram að þessu vantað smábíl á heimamarkaðinn til að keppa við asíska bíla eins og Honda Jazz (Fit), Chevrolet Aveo og Toyota Yaris. Svo vel vill þá til að Mazda sem að 33 prósenta hluta er í eigu Ford, frumsýnir alveg nýja gerð smábíls í Genf í næstu viku. Þessi nýi bíll er Mazda 2 og mun hann verða settur á Bandaríkjamarkaðinn sem Ford.

Mark Fields er yfirmaður Ford í N. og S. Ameríku. Hann staðfesti þetta á fundi með samstarfsmönnum sínum í síðustu viku og sagði að verið væri að leggja síðustu hönd á nýjan smábíl sem byggður væri á tækninni að baki hinum nýja Mazda 2. Frá þessu er greint í Detroit News.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ford leitar í smiðju Mazda því að hinn bandaríski Ford Fusion og Lincoln MKX eru að grunni til Mazda 6.