Nýr metanknúinn sorpbíll
05.07.2005
Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri tekur við metan-öskubílnum af Jóni Trausta Ólafssyni framkvæmdastjóra Öskju ehf.
Í síðustu viku tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri Reykjavíkur við lyklunum að nýjum sorpbíl af Mercedes Benz gerð, hjá Öskju ehf, Mercedes Benz umboðinu á Íslandi úr hendi framkvæmdastjórans, Jóns Trausta Ólafssonar.
Það sem er sérstakt við þennan bíl er að hann gengur fyrir metangasi sem verður til í sorpi sem urðað er í Álfsnesi á Kjalarnesi. Þetta er fyrsti metanknúni bíllinn af þessari stærð sem tekinn er í notkun hér á landi. Óbrunnið metangas er öflug gróðurhúsalofttegund en við það að gasinu er brennt upphefjast gróðurhúsaáhrifin og lítil sem engin mengun verður af bruna þess.
Í frétt frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar segir að borgin vilji skapa íbúum fallegt og heilnæmt umhverfi og að mikilvægur þáttur og stórt skref í átt að heilnæmara umhverfi sé að ökutæki borgarinnar gangi fyrir vistvænu eldneyti og séu hljóðlátari. Borgin reki 10 sorpbíla og sé ætlunin að þeir gangi allir fyrir metangasi.
Sorpbílar sem brenna metangasi valda um 80% minni sótmengun en hefðbundnir dísilbílar og útblástur köfnunarefnisoxíða er um 60% minni. Þá eru stórir bílar af tagi sorpbílanna miklu hljóðlátari en dísilknúnir samskonar bílar. Segja má að nýi metanknúni öskubíllinn sé sjálfbær í orkubrennslu sinni því að hann safnar saman heimilissorpinu sem síðan verður að eldsneytinu á hann.