Nýr Mitsubishi Colt 2013

Á bílasýningu í Tokyo í Japan sem nú stendur, sýnir Mitsubishi nýja kynslóð smábílsins Colt. Það eru nokkur tíðindi að nýi bíllinn er minni en sá eldri. Með þessu er sú gamla regla rofin, að nýjar kynslóðir bíla séu stærri en fyrirrennararnir.

Nýi Coltinn er sýndur í Tokyo og kemur fyrst á markað þar undir gerðarheitinu Mirage. Hann er fimm dyra, 3,71 m að lengd en eldri gerðin er 3,88 m. Í útliti sker hann sig lítt úr smábílaflokknum. Hönnuðir hafa greinilega takið þann kost að draga úr sérkennunum sem einkenna núverandi kynslóð Colt.

 Nýr Mitsubishi Colt er væntanlegur á markað utan Japans árið 2013. Hann verður svokallaður heimsbíll, sem þýðir að um sama bíl verður að ræða undir þessu gerðarheiti á öllum markaðssvæðum. Hann verður aðallega byggður í Thailandi, eins og raunar ýmsir fleiri bílar sem vel eru þekktir hér á landi – bílar eins og Nissan Micra o.m.fl.