Nýr Mitsubishi L-200 kominn til Íslands

http://www.fib.is/myndir/L200_new.jpg
L-200 pallbíllinn frá Mitsubishi Motors er nýr bíll - hannaður frá grunni. Meðal nýjunga er hljóðlát 2,5 lítra CommonRail, 136 hestafla dísilvél, nýr fjöðrunarbúnaður, Super Select 4WD drifkerfi, sem er þekkt og þrautreynt úr Mitsubishi Pajero jeppanum, auk þess sem innra rými er mun rúmbetra og íburðarmeira en var í eldri gerðinni.

Nýja hönnunin á L-200 bílnum gerir hann lipran í akstri og státar hann af minnsta beygjuradíus í sínum stærðarflokki. Hægt er að velja um 5 gíra handskiptan gírkassa eða 4 þrepa sjálfskiptingu og kostar bíllinn frá 2.960.000 þúsund krónum. Hann er fáanlegur í tveimur útfærslum, Invite og Instyle og er sú síðarnefnda meðal annars búinn leðurinnréttingu, dökkum hliðarrúðum og stöðugleikastýringu.

FÍB blaðið hefur reynsluekið þessum nýja L-200 bíl og fór reynsluaksturinn fram á ítölsku eynni Sardiníu seint á síðasta ári. Félagsmenn geta lesið um reynsluaksturinn í 1. tölublaði FÍB blaðsins sem kom út í ársbyrjun.

Nýi L-200 bíllinn verður frumsýndur í húsakynnum HEKLU, Laugavegi 174, frá kl. 10-16 laugardaginn 20. maí.