Nýr og stærri Citroen Picasso
Citroen C4 Picasso
Á Parísarbílasýningunni sem hefst rétt fyrir næstu mánaðamót stóð til að heimsfrumsýna nýjan og stærri Citroen Picasso en kynningunni var eiginlega þjófstartað og bíllinn kynntur á fundi með bílablaðamönnum í París í gær. Þessi nýi bíll er byggður á C4 grunnplötu meðan sá eldri er byggður á grunni Xsara sem er sjaldgæfur bíll á Íslandi.
Þessi nýi bíll ber gerðarheitið C4 Picasso og verður framleiddur samhliða hinum eldri og minni Picasso sem er bæði styttri og mjórri en sá nýi. Lengd milli hjóla þess nýja er 2,73 m, heildarlengdin er 4,59 m, breiddin er 1,83 m og hæðin er 1,70. Að stærð er hann því eiginlega mitt í milli gamla Picasso og stóra sjö sæta fjölnotabílsins C8. Citroën hefur rannsakað bílamarkaðinn í Evrópu og komist að því að það er einmitt pláss fyrir fjölskyldu-/fjölnotabíl af þessari stærð. Fram kom hjá talsmönnum Citroen á blaðamannafundinum í París í gær að það sem þessi bíll hefði framyfir aðra samskonar bíla annarra framleiðenda væri gott pláss (m.a. sjö sæti), þægindi, ríkulegur búnaður og afbragðs aksturseiginleikar.
Mikill búnaður
Í stuttu máli er þetta það sem Citroen telur að muni gagnast C4 Picasso í samkeppninni við sambærilega bíla eins og t.d. Opel Zafira, Ford C-Max, VW Touran og Mazda 5.
* Sjö sæti í tiltölulega litlum bíl utanum sig.
* Gott gólf-/fótarými í öllum þremur sætaröðum.
* Aðeins þarf eitt handtak til að fella öftustu sætaröðina niður og þá myndast slétt gólf í 672 lítra farangursrými. Með öftustu sætaröðina uppi er farangursrýmið 208 lítra. Ef öll fimm aftursætin eru felld niður í gólfið verður flutningsrýmið 1.951 lítri.
* Mið-sætaröðin eru þrír jafnbreiðir stólar með allskonar stillingum fyrir mjóhrygg auk þess sem hægt er að stilla fjarlægð frá framstólum.
* Þegar stigið er inn í öftustu sætin renna endastólarnir til beggja hliða fram og upp á við þannig að auðvelt er að stíga í og úr öftustu sætunum.
* Gríðarlega stór framrúða með góðri útsýn til hliða og upp á við.
* Glerþak á 2/3 af toppnum eða öllum fæst sem aukabúnaður.
* 6-gíra sjálfskipting með gíraveljara á stýrinu er fáanleg.
* Miðjan á stýrishjólinu snýst ekki með stýrishjólinu. Á henni eru ýmis helstu stjórntæki og –rofar.
* Hita/kælikerfi. Aðskildir hitastillar fyrir vinstri/hægri hluta fólksrýmisins.
* Mikið af fáanlegum aukabúnaði eins aðalljósum sem beygja með framhjólunum, bakk-radar sem gefur upp lengd og breidd þröngra bílastæða, loftfjöðrun á afturhjólum og sjálfvirk hæðarstilling óháð hlassþyngd, sér hita- og loftræstikerfi fyrir aftursætin og litaðar rúður.
* Skriðstillir með forritanlegum hámarkshraða er staðalbúnaður.
* Rafstýrður stöðuhemill sem fer sjálfvirkt á ef stöðvað er í brekku er sömuleiðis staðalbúnaður. Búnaðurinn kemur í veg fyrir að bíllinn renni afturábak þegar taka á af stað í brekku. * Sjö loftpúðar í fólksrýminu eru staðalbúnaður. Þá fæst búnaður eins og skynjari sem mælir loftgæði inni í bílnum, búnaður sem fylgist með loftþrýstingi í dekkjum, leiðsögubúnaður, hágæða hljómkerfi, DVD myndkerfi með skjám í framsætisbökunum.
Fjórar vélargerðir í boði
Fyrir C4 Picasso getur kaupandi valið milli fjögurra vélargerða; tveggja dísil-, og tveggja bensínvéla.
Bensínvélarnar eru annarsvegar 1,8 l 127 ha. Eða 2,0 l 143 ha. Við þá minni er fimm gíra handskiptur gírkassi staðalbúnaður en hægt að fá sex gíra handskiptan kassa eða fjögurra gíra sjálfskiptingu við þá stærri.
Dísilvélarnar eru 110 ha eða 130 ha. Sú minni er með fimm gíra handskiptum gírkassa sem staðalbúnaði en eingöngu við þá stærri fæst nýi sex gíra kassinn sem bæði getur skipt sjálfvirkt eða ökumaðurinn getur skipt með tökkum eða flipum á stýrinu.
Gríðarlega stór framrúða og góð útsýn er meðal þess sem framleiðandi telur þessum nýja fjölnotabíl til framdráttar. Hann er sjö manna þrátt fyrir að vera ekki sérlega stór um sig að utan í það minnsta.