Nýr Opelforstjóri
Það verður ekki gamli bílakappinn, hinn 77 ára gamli Bob Lutz sem tekur við stjórn Opel í Þýskalandi. Í morgun var það tilkynnt að Bretinn Nick Reilly verður tímabundið forstjóri meðan leitað er að framtíðarforstjóra. Carl-Peter Forster fyrrverandi forstjóri hafði m.a. unnið að undirbúningi að því að selja Opel tll kanadíska íhlutaframleiðandans Magna. Þegar stjórn GM ákvað öllum á óvart að hætta við að selja Opel, gekk Carl-Peter Forster út í fússi.
Fritz Henderson stjórnarformaður GM hefur verið í Þýskalandi í vikunni að freista þess að sefa reiði þýsku ríkisstjórnarinnar og Angelu Merkel kanslara vegna sinnaskiptanna varðandi söluna á Opel. Í samtali við þýska sjónvarpsstöð í gærkvöldi taldi hann góðar horfur á að það tækist. Enga sáttfýsi var hins vegar að heyra á Angelu Merkel sem gaf lítið fyrir mannasiði GM-stjóranna í Detroit gagnvart þýskum stjórnvöldum og starfsmönnum Opel.
Sjónvarsfréttamaður spurði síðan Henderson um hvað GM ætlaði sér eiginlega með Opel og hvaða verksmiðjum ætti að loka og hversu marga starfsmenn ætti að reka. Henderson vildi engu svara um það en sagði að það bíla- og vélaúrval sem nú væri í boði hjá Opel yrði það áfram. Ekki væri heldur ætlunin að stækka Opel þar sem það væri staðbundið vörumerki og það væri ekki líklegt til að breytast neitt.
Nýi Opel forstjórinn heitir fullu nafni David Nick Reilly. Hann er 59 ára gamall Breti með háskólapróf frá Cambridge. Hann hóf að starfa innan GM samsteypunnar árið 1975, hjá Detroit Diesel Allison Division í Bretlandi. Síðan hefur hann komið víða við innan GM, m.a. í Evrópu, Ástralíu, S. Ameríku, Kóreu og hjá Vauxhall í Bretlandi.