Nýr Passat er Evrópubíll ársins

Nefnd 58 bílablaðamanna frá 22 Evrópulöndum valdi hinn nýja Volkswagen Passat bíl ársins í Evrópu 2015. Valið var tilkynnt á blaðamannadegi bílasýningarinnar í Genf þann 3. mars sl. Passatinn hlaut 340 stig. Citroen Cactus varð í öðru sæti með 248 stig og í þriðja sæti varð Mercedes C-Klass með 221 stig.

Hver dómnefndarmanna hefur úr 25 stigum að spila sem hann getur deilt niður á þá sjö bíla sem komust í lokaúrslit. Enginn íslenskur bílablaðamaður á sæti í nefndinni sem velur bíl ársins í Evrópu. Einn Dani er hins vegar í henni og er hann fá Motor, félagsblaði FDM. FDM er systurfélag FÍB.