Nýr Renault Modus

http://www.fib.is/myndir/NewModus.jpg
Renault New Modus.

Litli fjölnotabíllinn frá Renault – Renault Modus hefur nú verið uppfærður þótt einungis séu tæp fjögur ár síðan Modus kom fyrst fram. Ástæðan er sú að fyrsta útgáfan hafði mjög lítið farangursrými og seldist af þeim sökum mun verr en gert hafði verið ráð fyrir. Nú eru komnir fram tveir nýir Modusar, báðir stærri en sá upphaflegi. Sá stærri nefnist Grand Modus. Hann er kvart metra lengri en sá gamli og farangursrýmið er helmingi stærra. Bílarnir voru sýndir fréttamönnum í fyrradag í tengslum við bílasýningu í Bologna á Ítalíu.

Segja má að gerð hafi verið smá mistök hjá Renault þegar Modus var hleypt af stokkunum fyrir fjórum árum. Modus átti upphaflega að vera einskonar hábyggð  fjölnotaútgáfa af Renault Clio og um leið einskonar „vasaútgáfa af hinum vinsæla Renault Scénic. Modus reyndist hins vegar of stuttur til að falla kaupendum í geð og sérstaklega var það þröngt aftursæti og lítið farangursrými sem kaupendum geðjaðist illa að.
http://www.fib.is/myndir/GrandModus.jpg
Með Grand Modus er Renault kominn með mótleik gegn samkeppnisbílunum sem eru Opel Meriva, Ford Fusion, Fiat Idea og jafnvel Nissan Note, sem er innan Renault fjölskyldunnar ef svo má segja. Hinn Grand Modus er reyndar byggður á sömu grunnplötu og Nissan Note og er nákvæmlega 24 sm lengri en upprunalegi Módusinn og 9,5 sm lengri milli hjóla.

Aftursætið er tvískipt (60/40). Það er á sleða og hægt að renna því 15 sm úr fremstu stöðu í þá öftustu.  Rúmmál farangursrýmisins með aftursætið í öftustu stöðu er 305 lítrar en 410 þegar sætið er í fremstu stöðu. Með afturstæið allt niðurfellt er farangursrýmið 1.454 lítrar að rúmmáli.

Styttri Módusinn nýi er með 248 sm bil milli hjóla sem er það sama og í gömlu gerðinni. Hins vegar hefur yfirbyggingin verið lengd um 8 sm og við það varð farangursrýmið 19 lítrum stærra en í þeim gamla. Aftursætið er einnig á sleða og hægt að renna því 15 sm aftur úr fremstu stöðu.

Upprunalegi Módusinn var á sínum tíma fyrsti smábíllinn til að hljóta fimm stjörnur í árekstursprófi EuroNCAP. Ætla má að nýju Módusarnir tveir verði ekki síðri að þessu leyti. ESC stöðugleikakerfi er sagt vera fáanlegt sem aukabúnaður en verði þó staðalbúnaður á nokkrum markaðssvæðum til dæmis í Svíþjóð. Fjórir loftpúðar verða þó staðalbúnaður allsstaðar.

Grand Modus mun fást með fjórum gerðum bensínvéla frá 75-110 hö. og þremur útfærslum 1,5 l dísilvélar; 70, 85 eða 105 ha. Gírkassar eru fimm eða sex gíra, ýmist handskiptir eða með gírvali og tölvustýrðri skiptingu. Loks fæst hefðbundin fjögurra hraða sjálfskipting.

Sala á Grand Modus og New Modus hefst þann 18. janúar í Frakklandi en með vorinu á Norðurlöndum. Stutta gerðin kostar í Frakklandi frá 13.800 evrum og sú lengri allt að 19.800 evrum fyrir best búnu gerðina með öflugustu dísilvélinni.