Nýr samvinnujepplingur á nýju ári
30.11.2005
Nýr jepplingur; Fiat Sedici/Suzuki SX4. Kemur til Íslands með vorinu.
Fiat á Ítalíu og Suzuki í Japan hafa í sameiningu þróað nýjan jeppling sem kemur á Evrópumarkað með nýju ári. Bíllinn er byggður á tækni beggja – dísilvélarnar koma frá Fiat en sjálfur bílskrokkurinn er frá Suzuki, þróaður út frá undirvagni og yfirbyggingu hins nýja Suzuki Swift, bíls ársins á Íslandi 2006. Bíllinn er áþekkur að stærð og t.d. Honda CRV og aðrir sambærilegir bílar.
Í Fiat-útgáfunni heitir nýi jepplingurinn Sedici en hjá Suzuki er gerðarheitið SX4. Í öllum meginatriðum er þó um einn og sama bílinn að ræða, svipað og er með hinn þríeina Toyota Aygo/Citroen C1/Peugeot 107. Hvorir um sig setja svo Fiat og Suzuki eigin sérkenni í innréttingar og ytra útlit.
Suzuki SX4/Fiat Sedici er háfættur jepplingur með fullkomnum drifbúnaði sem leyfir akstur í framhjóladrifi einu saman, - í sítengdu fjórhjóladrifi og í þriðja lagi er hægt að læsa mismunadrifinu milli fram- og afturhjólanna. Vel hátt er undir lægsta punkt, eða 19 sm. Fiat Sedici/Suzuki SX4 verður byggður í verksmiðju Suzuki í Ungverjalandi og í Japan. Byrjað verður að kynna bílinn undir merkjum Fiat á bílasýningunni í Bologna á Ítalíu sem hefst á laugardaginn kemur, þann þriðja desember. Bíllinn verður svo kynntur sem Suzuki á Genfarsýningunni í mars nk.
Nafnið Fiat Sedici þýðir sextán og er það tilvísun í fjórhjóladrifstáknið 4x4. Þótt löngu sé ljóst orðið að fjórum sinnum fjórir séu sextán þá er fjórhjóladrifstáknið 4x4 ekki beint hugsað sem reikningsdæmi heldur þannig að undir bílnum séu fjögur hjól og það sé drif á þeim öllum. Þetta er nú ekki flóknara en svo.
Fiat Sedici/Suzuki SX4 er. 4,10 m langur og 1,76 m á breidd. Hann er því um 40 sm lengri en Swift og rúmum 30 sm lengri en Suzuki Ignis sem bæði fæst með fjórhjóladrifi eða framdrifi.
Fjórhjóladrifið í Fiat Sedici/Suzuki SX4 er sem fyrr segir stillanlegt þannig að aka má í framhjóladrifi, sítengdu aldrifi eða læstu á lengdina (milli fram- og afturhjóla). Þrjár gerðir véla verða í boði; 1,6 l 107 ha. bensínvél, 1,9 l 120 ha. dísilvél eða 1,5 l bensínvélin sem er sú sama og í Suzuki Swift en í 99 ha. útgáfu. Að sögn Úlfars Hinrikssonar framkvæmdastjóra Suzukibíla verður þessi nýi bíll fáanlegur á Íslandi með vorinu.