Nýr Skoda Fabia

http://www.fib.is/myndir/Fabia1-litil.jpg
Hin nýja gerð, árgerð 2007 af Skoda Fabia.


Á næstu bílasýningu í Genf mun Skoda sýna nýja kynslóð smábílsins Skoda Fabia, sem fyrst kom fram á bílasýningunni í Frankfurt árið 1999. Skoda hefur sent frá sér myndir af nýja bílnum sem er talsvert breyttur frá eldri gerðinni.

Nýja Fabían er 3 sm lengri, og 5 sm hærri en gamla gerðin og farangursrýmið er komið í 300 lítra úr 260. Þegar aftursætið er fellt niður eykst farangursrýmið í 1.163 lítra. Að stærð og notagildi er nýja Fabían í flokki með hinum nýja Renault Clio og hjá Skóda í Tékklandi segja menn að Fabían sé með mesta fóta- og höfuðrými í sínum flokki. Nýja Fabían er það sem kallast hlaðbakur (svipað og VW Polo) en bæði stallbakur og langbakur (Station-gerð) verða ekki byggðir af þessari nýju gerð að sinni, heldur verða eldri gerðirnar af þeim byggðar áfram áfram samhliða þeim nýja.

Fabían kom fyrst fram árið 1999 sem fyrr er sagt og hafa 1,5 milljón eintök verið byggð til þessa. Eins og nú var fyrsta framleiðsluárið eingöngu byggðir hlaðbakar en langbakur kom árið 2000 og fjögurra dyra stallbakur 2001.

Nýja Fabían verður vel búinn smábíll með góðum öryggisbúnaði eins og ESP og loftpúða í þakbrúnum sem springa út við hliðarárekstur og ná til bæði fram- og aftursæta. Hann verður með Isofix festingu fyrir barnastóla afturí og til viðbótar við þær verður sérstök efri festing fyrir barnastólinn sem kemur í veg fyrir að stóllinn geti steypst framávið í árekstri.

Hægt verður að fá Skoda Fabia nánast klæðskerasaumaðan hvað varðar búnað og útfærslur. Meðal þess sem í boði verður eru sjö gerðir véla og sex hraða Tiptronic sjálf/handskipting með aflmestu vélunum. Af ýmsu öðru má nefna Bluetooth-tengingu fyrir handfrjálsan farsíma, alsjálfvirkt hitunar- og loftræstikerfi, vandað hljóðkerfi sem hægt er að tengja við iPod og aðra Mp3 spilara.

http://www.fib.is/myndir/Fabia1.jpg
Vélarnar sjö sem í boði verða eru eftirfarandi:

Bensínvélar:
3-strokka, 1,2 lítra, 60 ha.
3-strokka, 1,2 lítra, 12 ventla, 70 ha.
4-strokka, 1,4 lítra, 86 ha.
4-strokka, 1,6 lítra, 105 ha.

Dísilvélar /m. samrásarinnsprautun:
4-strokka, 1,4 lítra, 70 ha
4-strokka, 1,4 lítra, 80 ha
4-strokka, 1,9 lítra, 105 ha
http://www.fib.is/myndir/Fabia2.jpg