Nýr smábíll frá Opel

Hjá Opel í Þýskalandi er nú verið að reynsluaka frumgerðum nýs smábíls. Fátt hefur verið látið uppskátt um þennan nýja bíl annað en gerðarheiti hans sem tilkynnt var nú í morgun. Það verður Adam. Nýi bíllinn mun semsé heita Opel Adam. Myndin er af einum tilraunabílnum í felubúningi.

Nafnið er sótt til upphafsmannsins og stofnanda Opel en sá hét Adam Opel og fæddist árið 1837 í Rüsselsheim skammt frá Frankfurt am Main þar sem höfuðstöðvar Opel hafa verið frá upphafi. Bílafréttamiðlar í Þýskalandi herma að menn hafi lengi velt fyrir sér hvaða gerðarheiti skyldi velja á nýja smábílinn. Nöfn á ýmsum teiknimyndafígúrum hafa verið ofarlega á blaði en svo datt þeim í hug nafn stofnandans, sem auðvitað er upplagt þar sem flestallir heimsbúar þekkja söguna úr fyrstu Mósebók í Biblíunni um hinn fyrsta mann.

Hinum nýja Opel Adam verður ekki síst ætlað að höfða til ungs fólks sem kaupir sinn fyrsta nýja bíl. Hann mun þannig keppa á markaði í Evrópu við Fiat 500, Ford Fiesta, Mini og fleiri svipaða bíla.

Opel Adam verður byggður á nýrri grunnplötu sem nýjasta kynslóð Opel Corsa er byggð á. Adam verður 3,7 metra langur og fjöldaframleiðsla á honum hefst í byrjun næsta árs í Verksmiðju Opel í Eisenach í gamla A. Þýskalandi þar sem á tímum a. þýska alþýðulýðveldisins voru byggðir Trabant bílar.