Nýr smájepplingur
Volkswagen er langt kominn með nýjan örjeppa sem byggður verður á VW up! smábílnum. Hugmyndarbíllinn Taigun sem fyrst var sýndur árið 2012 en hefur nú verið uppfærður til sýningar á Genfarsýningunni sem framundan er, verður að skoðast sem eins konar forsýning á smájeppanum sem í vændum er.
Hinn nýuppfærði Taigun er nokkuð breyttur frá sýningarbílnum frá árinu 2012 og er samkvæmt fréttum frá VW, nánast tilbúinn til fjöldaframleiðslu. Sýnilegustu breytingarnar eru þær að varahjóli er nú komið fyrir utan á bílinn aftanverðan. Þar eru ekki dyr eins og algengast er heldur tveir flekar, ekki ósvipað og var á gamla Bronco jeppanum. Slíkir flekar og varadekk aftan á þykir vera fínt í Indlandi og Brasilíu en sagt höfða síður til evrópskra bílakaupenda.
Taigun er byggður upp frá smábílnum VW up! sem fyrr segir en er hábyggðari og jeppalegri en VW up! Varla er þó hægt að tala um hann sem torfærutæki þar sem hann er einungis framhjóladrifinn, hvað sem síðar kann að verða.
Vélin er þriggja strokka bensínvél með meinni innsprautun og túrbínu, 110 hö. Eyðslan er sögð verða um 4,7 l á hundraðið.