Nýr Sorento á Íslandi
ASKJA, umboðsaðili KIA á Íslandi, frumsýnir í dag nýjan Kia Sorento. Sorento jeppinn sem verið hefur vinsæll jeppi um árabil hér á landi hefur nú verið endurnýjaður frá grunni og er í frétt frá umboðinu sagður búa yfir fjölda eiginleika sem koma kröfuhörðustu ökumönnum skemmtilega á óvart. Hann sé þægilegur og rúmgóður jeppi sem fæst bæði fimm og sjö manna.
Þótt fyrri gerð Kia Sorento hafi ekki skort afl er í þennan bíl nú komin ný 197 hestafla dísilvél og 6 þrepa sjálfskipting. Þótt aflið sé orðið meir en áður er eyðslan minni, eða 7,4 l á hundraðið í blönduðum akstri samkvæmt hinni opinberu Evrópumælingu sem fer mjög nærri lagi miðað við eðlilega notkun og algengt aksturslag. Nýja jeppanum fylgir, eins og reyndar öllum nýjum Kia-bílum nú til dags, sjö ára framleiðsluábyrgð gagnvart hugsanlegum framleiðslugöllum.
Frumsýningin hófst kl. 10 í morgun og stendur í dag til kl. 18. Á morgun verður sýningin opin frá kl. 12.00 til kl. 17.00 hjá Öskju í Reykjavík en einnig hjá umboðsaðilum Öskju á Akranesi, Akureyri, Selfossi um þessa helgi einnig og í Reykjanesbæ um aðra helgi.