Nýr Subaru Outback fyrir Ameríku
Subaru Legacy Outback 2010 - sýndur í New York um þessar mundir.
Subaru Outback kom fyrst fram árið 1994 og hefur allar götur síðan verið mjög vinsæll bíll í Bandaríkjunum. Bíllinn er upphaflega upphækkaður Legacy langbakur með fjórhjóladrifi að sjálfsögðu. Þá er bætt utan á bílinn smá plastskrauti svona til að gera hann grófari ásýndum og jeppalegri.
Nú er fjórða kynslóð Outback að koma fram í dagsljósið og hefur Ameríkufrumsýning nýju gerðarinnar farið fram á bílasýningunni í New York sem nú stendur. Bíllinn er stærri en eldri gerðin var og rýmra um fólk og farangur. Yfirbygging og burðarvirki er nýtt og stiglaus CVT skipting er nýjung og á að spara eldsneyti.
Hinn nýi Outback er 4,78 m langur, 1,82 m breiður (var 1,32 m á breidd) og 1,67 m hár, (10,5 sm hærri en eldri gerð). Loks er nýja gerðin einnig breiðari og lengri milli hjóla og skögun yfir fram- og afturhjól er minni en áður, sem gerir bílinn jeppalegri í útliti. Það er ekki síst aukin lengd milli hjóla sem rýmkar um fólkið í bílnum, sérstaklega þó um þá sem í aftursætinu dvelja.
Öll innrétting er ný og vel til hennar vandað. Af nýjungum má nefna rafknúna handbremsu sem heldur sjálfvirkt við og sér til þess að bíllinn renni ekki afturábak þegar tekið er af stað upp í móti í brekku.
Í Bandaríkjunum standa tvær bensínvélargerðir til boða og báðar boxer að sjálfsögðu. Sú minni er 2,5 l að rúmtaki, 170 hö og 230 Nm. Við hana er sex gíra handskiptur kassi staðalbúnaður en CVT sjálfskipting er fáanleg.
Stærri vélin er sex strokka, 3,6 l að rúmtaki, 256 hö, 335 Nm. Við hana er fimm gíra sjálfskipting staðalbúnaður. Að vanda er sítengt aldrif staðalbúnaður í Subaru.
En Subaru frumsýndi einnig í New York nýja kynslóð Legacy fólksbíls eða stallbaks. Það þýðir væntanlega að ný kynslóð Legacy langbaks sé á leiðinni og að nýja Outback-gerðin sé væntanleg í Evrópu innan tíðar og þá með nýrri uppfærslu boxer-dísilvélarinnar frábæru sem Subaru kom fram með á síðasta ári.