Nýr Suðurlandsvegur milli Hveragerðis og Selfoss opnaður formlega
Nýr Suðurlandsvegur milli Hveragerðis og Selfoss var formlega tekinn í notkun í gær. Verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.
Þessi framkvæmd var mjög aðkallandi. Umferð hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin á þessum kafla. Árið 2000 var árdagsumferð (meðalumferð á dag, yfir árið) 4.970 bílar á sólarhring, árið 2012 var talan komin í 6.462 en þá tók umferðin kipp vegna aukins straums ferðamanna og var komin í 10.342 bíla á sólarhring árið 2019. Næstu tvö ár voru óvenjuleg vegna Covid-19, en í fyrra, árið 2022, var umferðin orðin 10.753 bílar á sólarhring.
Suðurlandsvegurinn á þessum kafla hefur verið einn slysamesti vegur landsins. Þó hefur slysatíðni haldist nokkuð stöðug síðustu ár, en var mun hærri á fyrstu árum þessarar aldar. Má líklega þakka það umferðaröryggisaðgerðum eins og hjáreinum við gatnamót og fræsingu hvinranda milli akreina sem vekja ökumenn til vitundar um að þeir séu að aka yfir á rangan vegarhelming. Vonir standa til að alvarlegum slysum fækki enn frekar með tilkomu nýja vegarins.
Framkvæmdin nær um sveitarfélagið Ölfus og sveitarfélagið Árborg og skiptist í Hringveg (um 7,2 km), Ölfusveg (um 6,6 km), Þórustaðaveg (um 0,4 km) og Biskupstungnabraut (um 0,7 km). Tvenn stór vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg. Fimm steyptar brýr og undirgöng ásamt tvennum reiðgöngum úr stáli teljast einnig til framkvæmdanna. Að auki voru gerðar miklar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja.
Hringvegur er byggður upp sem 2+2 vegur en gengið verður frá yfirborði hans sem 2+1 vegar.