Nýr Suzuki – Kizashi

Blaðamaður frá tímaritinu BilNorge komst nýlega óvart inn í stórt geymslutjald á athafnasvæði hins norska Suzuki innflutningsfyrirtækis í Drammen í Noregi. Þar tókst honum að mynda glænýjan Suzuki Kizashi. Þetta eintak mun vera hið fyrsta sem kemur til Evrópu, en bíllinn mun hafa átt að koma fyrst í sölu í Evrópu á Íslandi. Evrópufrumsýning verður á bílnum á bílasýningunni í Genf sem hefst í næsta mánuði.

Það er orðið nokkuð um liðið frá því að ný bílgerð kom fram hjá Suzuki sem þekktast fyrir litla og miðlungsstóra fólksbíla og jeppa. Þessi nýja gerð er því nokkuð annarskonar en þeir bílar sem Suzuki hefur hingað til verið þekktast fyrir. Kizasha er fremur stór og öflugur fjórhjóladrifinn fólksbíll. Hann

http://www.fib.is/myndir/Suzuki_kizashi2.jpg
Suzuki Kizashi - til Íslands í mars.

er upphaflega hannaður fyrir Bandaríkja- og Kanadamarkaði og hugsaður sem „einn með öllu,“ það er að segja bíll sem óþarfi er að vera að panta sérstaklega ýmsan búnað sem ekki fylgir staðalgerðinni – í honum er nefnilega allt sem þykir skipta máli nú til dags, eins og sjálfskipting, leðurinnrétting, öflug 2,4 lítra 178 hestafla vél, góð hljómtæki og Bluetooth símkerfi. En þótt bíllinn sé fyrst og fremst hugsaður fyrir Ameríkumarkað þá hafa Japanirnir hjá Suzuki ákveðið að bjóða bílinn fram á sérvöldum markaðssvæðum í Evrópu, það er að segja á Íslandi og líklega einnig Sviss og Noregi. Norski innflytjandinn sá bílinn í Japan fyrir skömmu og  pantaði eitt eintak í hvelli beint frá Japan. Bíllinn var fluttur með flutningaflugvél frá Cargolux til Luxemborgar og þaðan til Drammen skammt frá Osló, þar sem blaðamaður BilNorge rakst óvart á hann inni í risastóru geymslutjaldi innan um dekk í hillum og flutningagáma.

Úlfar Hinriksson forstjóri Suzukibíla á Íslandi staðfesti í samtali við fréttavef FÍB að fyrsta sending Kizasha sé væntanleg hingað til lands í næsta mánuði. Hann sagði þetta afar vel búinn bíl og í svipuðum stærðarflokki og t.d. Audi A4 og Subaru Legacy. Hann sagði að vegna vélarstærðarinnar (2,4 l að rúmtaki) lenti hann í 45 prósenta vörugjaldflokki í stað 30 prósenta flokknum sem nær til bíla með vélum allt að 2,0 l að rúmtaki. Verðið yrði þó engu að síður hagstætt miðað við jafn stóra og vel búna bíla. Hann sagði að síðarmeir yrðu fleiri vélarstærðir og gerðir í boði, en vegna kreppunnar í bílaiðnaðinum hefði öðrum vélargerðum og útfærslum þessa nýja bíls verið slegið á frest.