Nýr Toyota Hilux
19.05.2005
Ný kynslóð hins vinsæla og vel metna fjórhjóladrifna vinnujálks og slarkbíls, Toyota Hilux er á leiðinni og kemur á markað í Evrópu í októbermánuði. Nokkurnveginn samtímis er ný kynslóð sambærilegs Nissan væntanleg. Sá nefnist Navara og leysir Nissan King Cab af hólmi.
Nýi Hælúxinn er talsvert breyttur í útliti auk þess að vera nokkru stærri en sá eldri var. Lengdin er 5,15 m eða 34 sm lengri en sá gamli og 5 sm breiðari.
Eins og áður verður Hilux með ýmist einföldu eða tvöföldu húsi en hvað varðar vélar er valið ósköp einfalt, því aðeins er um eina dísilvél að ræða. Hún er 2,5 l, 102 ha með 260 Newtonmetra vinnslu. Tveir loftpúðar eru í bílnum og ABS læsivarðir hemlar.
Hinn nýi Hilux er mikið breyttur eins og sjá má af þessum myndum.