Nýr Toyota Yaris er eftirsóttur
Hinn nýi Toyota Yaris, sem er nýr bíll frá grunni og upp úr verður frumsýndur á Íslandi á sölustöðum Toyota um allt land nk. laugardag kl 11.00-16.00. Bílsins hefur greinilega verið beðið með nokkurri eftirvæntingu því að þegar er búið að selja yfir 70 bíla í forsölu og verða þeir fyrstu afhentir eigendum á sýningunum á laugardag.
Yaris er fyrsti bíllinn sem kemur hingað til lands með Toyota Touch, nýjum búnaði frá Toyota sem inniheldur 6,1“ snertiskjá, handfrjálsan Bluetooth-búnað fyrir farsíma, bakkmyndavél, aksturstölvu og tengimöguleika fyrir tónlist.
Einnig fást bílarnir með Touch and Go þar sem við bætist GPS-kortaleiðsögukerfi fyrir Ísland ásamt margmiðlunarkerfi.
EuroNCAP hefur þegar árekstursprófað hinn nýja Yaris og reyndist hann vera fimm stjörnu bíll. Af öryggisbúnaði í honum sem er staðalbúnaður er m.a. ESC stöðugleikabúnaður og sjö loftpúðar.