Nýr tryggingavalkostur - Elísabet
13.01.2006
Nýr kostur á sviði bílatrygginga varð til í dag, föstudaginn 13. janúar klukkan 13.00. Þetta nýja tryggingafyrirtæki nefnist Elísabet og rekur starfsemi sína á Netinu á vefslóðinni https://www.elisabet.is/.
Elísabet býður viðskiptavinum þá athyglisverðu nýjung í bifreiðatryggingum að kaupa tryggingaþjónustu til eins mánaðar í senn en ekki eins árs eins og tíðkast hefur hingað til á íslenskum bílatryggingamarkaði. Þá býðst viðskiptavinum Elísabetar að velja tryggingar og raða saman í pakka í samræmi við eigin þarfir og áhættu. Auk trygginga geta viðskiptavinir Elísabetar fengið bílalán og í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að Elísabet bjóðist til að lána vinum sínum peninga til bílakaupa, ætðið á hagstæðustu kjörum. Í frétt Elísabetar segir síðan:
„Elísabet mun fyrst í stað bjóða bílatryggingar og bílalán. Hún nálgast markaðinn með óhefðbundnu sniði, með lágu verði og á forsendum viðskiptavinanna en ekki tryggingafélaganna. Hún hefur að leiðarljósi sveigjanleika, hagstæð kjör og einfalt aðgengi og er auk þess með ólæknandi bíladellu.“
„...Elísabet er vörumerki í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og byggir tjónaþjónusta hennar á 50 ára reynslu TM á því sviði. Óvenjulegt nafn hennar ásamt merki kemur hugmyndinni á bak við starfsemina vel til skila. Elísabet hefur ákveðinn persónuleika sem kristallast í væntumþykju í garð bíla. Hún hefur skoðanir og tekur tillit til ólíkra þarfa bíla og bíleigenda. Skel hennar táknar einnig þá vernd sem hún veitir ökumönnum og bílum. Elísabet er líka óhrædd við að sýna alla yfirbyggingu fyrirtækisins í merkinu sem er sama skelin. Hún er ef til vill ekki hraðskreiðasti þátttakandinn í umferðinni en það má þó minna á að skjaldbökur hafa lifað af hvers kyns hörmungar og jafnvel sigrað montnustu héra í kapphlaupi.
Skari skrípó ásamt Jóni Páli Leifssyni talsmanni Elísabetar. Skari kom akandi á klessta bílnum á kynningarfund Elísabetar í bílastæðahúsinu Traðarkoti sem haldinn var í hádeginu í dag föstudag.