Nýr Volvo P1800?
Einhverjir muna trúlega eftir sjónvarpsröðinni um dýrlinginn með Roger Moore í aðalhlutverkinu frá sjöunda áratuginum. Dýrlingurinn var breskur spæjari og einstakur sjéntilmaður og ók á Volvo P 1800 sportbíl. Nú ætlar Volvo að sýna frumgerð nýs P 1800 á bílasýningunni í Frankfurt sem senn hefst. Bíllinn, sem nefnist Volvo Concept Coupé er einn þriggja frumgerða sem sýndar verða í Frankfurt. Allar eru þær úr smiðju nýs hönnunarfyrirtækis í eigu Volvo.
Yfirhönnuður Volvo, Thomas Ingenlath (áður hjá Audi og VW) segir að hinn nýi sportbíll sé hreint ekki svo fjarlægur draumur. Hann eigi að sýna þá hönnunarmöguleika sem fólgnir eru í nýjasta hönnunargrunni Volvo. Sú meginlína sem frá honum komi skili sér þannig að skyldleikinn sé áfallt augljós. Þannig verði þessi meginlína vel sýnileg í gjörólíkum bílum eins og hinum nýja XC90 (sem kemur 2014) og þessum nýja sportbíl þótt hann sé vissulega enn á hugmyndarstigi.
Hönnuðurinn Ingenlath segir það vera skyldu bílahönnuða að byggja á hefð þess bílaframleiðanda sem unnið er fyrir. Gamli P 1800 bíllinn hafi verið rómaður fyrir útlitsfegurð og ýmis stíleinkenni hans skili sér því í útliti nýja bílsins án þess þó hann sé bein eftirlíking þess gamla.
Volvo Concept Coupé er tengiltvinnbíll. Bensínvélin í honum er tveggja lítra að sprengirými og við hana er bæði útblásturstúrbína og forþjappa. Vélin knýr framhjól bílsins. Rafmótor knýr síðan afturhjólin en þegar bæði þessi kerfi vinna saman á fullum afköstum er samanlagt afl um 400 hestöfl og vinnslan 600 Newtonmetrar.